Samdráttur í kínverska efnahagslífinu hefur þýtt að Kínverjar eyða nú minni fjárhæðum í lúxusvörur eins og föt og skartgripi. Bíómiðar eru þar engin undantekning en árið 2024 var sérstaklega erfitt fyrir kínverska kvikmyndaiðnaðinn.

Samkvæmt fréttaflutningi CNN lækkuðu miðasölutekjur í Kína um 23% samanborið við 2023. Tekjur voru þá 34% lægri en árið 2019, sem var metár fyrir iðnaðinn áður en heimsfaraldur skall á.

Vinsælasta kvikmyndin á síðasta ári var myndin Yolo en hún fjallaði um þrítuga konu sem léttist og öðlaðist sjálfstraust með því að æfa hnefaleika. Gamanmyndin, þar sem leikkonan og leikstjórinn Jia Ling missti 45 kíló á meðan á tökum stóð, þénaði meira en 474 milljónir dala í miðasölu.

„Gamanmyndir eru enn vinsælustu kvikmyndirnar fyrir áhorfendur og samsvara um 36% af árlegri miðasölu,“ segir Liu Zhenfei, gagnasérfræðingur hjá Lighthouse Research Institute.

Þessi árlegi samdráttur er þó einnig að hluta til vegna þess að færri kvikmyndir voru framleiddar í Kína. Samkvæmt opinberum gögnum voru aðeins 612 kvikmyndir framleiddar árið 2024, samanborið við 792 árið áður.