Kínverska ríkisstjórnin hefur ákveðið að hætta að birta tölur um atvinnuleysi ungs fólks í landinu. Að sögn talsmanns ríkisstjórnarinnar er ákvörðunin tímabundin og var tekin vegna „breytinga í samfélaginu.“

Atvinnuleysi meðal fólks á aldrinum 16 til 24 ára í stórborgum fór yfir 20% í júní á þessu ári.

Samkvæmt opinberum tölum sem kínversk yfirvöld birtu á þriðjudaginn hafði atvinnuleysi á landsvísu hækkað í 5,3% í júlí. Kínverski seðlabankinn hefur einnig lækkað lánakostnað til að reyna styðja við hagvöxt í landinu.

Fu Linghui, talsmaður kínversku hagstofunnar, segir að endurskoða þurfi aðferðina sem notuð er til að reikna út atvinnuleysi meðal ungs fólks. „Efnahagslífið og samfélagið eru stöðugt að þróast og breytast. Þá þarf einnig að bæta úr tölfræðinni.“

Hann gaf í skyn að fjölgun nemenda á aldrinum 16 til 24 ára hefði haft áhrif á atvinnuleysistölur, en Kína hefur aldrei talið þá námsmenn sem „atvinnulausa“. Kínverjar byrjuðu fyrst að birta tölur um atvinnuleysi ungs fólks árið 2018 en þær tölur ná hins vegar bara til fólks í þéttbýli og eru því engar tölur til um atvinnustöðu ungs fólks á landsbyggðinni.

Ákvörðunin var mjög umdeild á kínverskum samfélagsmiðlum og fóru margir kínverskir netverjar að gagnrýna hagstofuna á Twitter-síðu Kínverja, Weibo.

„Að hylja yfir munninn og loka augunum, getur það virkilega leyst vandamálið? Með sveigjanlegri ráðningu og sjálfstæðri vinnu, þá þýðir eins klukkutíma vinna að þú sért ekki lengur atvinnulaus. Ekki taka tölfræðinni frá hagstofunni alvarlega,“ skrifaði einn notandi.

Annar notandi benti á að svo lengi sem hann tilkynnti það ekki, þá væri hann ekki lengur atvinnulaus samkvæmt útreikningi hagstofunnar.