Kínversk stjórnvöld hafa tilkynnt að frá og með næsta mánuði þarf sérstakt leyfi til að flytja út gallín og germaníum en þau eru lykilhráefnin sem notuð eru smíði hálfleiðara. Kína er einnig stærsti framleiðandi þessara málma.

Ákvörðunin kemur í kjölfar deilna milli Kína og Bandaríkjanna en kínversk stjórnvöld ásaka yfirvöld í Washington um að takmarka aðgengi Kína að hálfleiðurum.

Viðskiptaráðuneyti Kína segir ákvörðunina vera nauðsynlega til að verja þjóðaröryggi landsins og hagsmuni þess. Hún kemur hins vegar aðeins nokkrum dögum fyrir heimsókn Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sem mun fara til Peking seinna í vikunni.

Hálfleiðarar eru notaðir til að knýja farsíma, sólarrafhlöður, hernaðarbúnað og nánast allt sem notað er í daglegu lífi. Þeir hafa einnig orðið eitt helsta umræðuefni í deilu milli tveggja stærstu hagkerfa heims.

„Það væri hörmulegt fyrir okkur að reyna að aftengjast Kína“

Bandarísk stjórnvöld tóku til að mynda ákvörðun í október í fyrra að fyrirtæki þeirra sem notast við bandarískan hugbúnað myndu einnig þurfa sérstakt leyfa skyldu þau vilja flytja út tölvukubba til Kína. Önnur lönd eins og Holland og Japan hafa einnig tekið svipaðar ákvarðanir.

Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sem mætir til Kína á fimmtudaginn, hefur hins vegar varað við því að slíta efnahagsleg tengsl milli Kína og Bandaríkjanna.

„Ég held að bæði við og Kína græðum á opnum viðskiptum og fjárfestingum og það væri hörmulegt fyrir okkur að reyna að aftengjast Kína,“ sagði Yellen fyrir framan bandaríska þingið í síðasta mánuði.