Lögreglan í Kína hefur handtekið fjóra starfsmenn taívanska fyrirtækisins Foxconn, sem framleiðir iPhone-síma, í borginni Zhengzhou í Henan-héraði. Ástæðan er sögð vera ákæra um brot á trausti en Foxconn segir málið hið furðulegasta.

Þetta kemur fram á vef BBC en Foxconn hefur enn ekki svarað fyrirspurnum fréttastofunnar. Taívönsk yfirvöld telja málið vera misnotkun valds af hálfu kínverskra lögreglumanna.

Foxconn er stærsti framleiðandi iPhone-síma og er jafnframt einn stærsti vinnuveitandi heims. Fyrirtækið er með stórar framleiðslustöðvar í Kína og varð frægt í kringum 2011 fyrir að setja net fyrir utan heimavistir starfsmanna sinna til að koma í veg fyrir sjálfsmorð vegna vinnuálags.

Kínversk skattayfirvöld hófu rannsókn á fyrirtækinu í október á síðasta ári en á þeim tíma var Terry Gou, stofnandi Foxconn, að bjóða sig fram í forsetakosningum í Taívan.

Yfirvöld í Taívan hafa einnig hvatt borgara sína til að forðast ónauðsynleg ferðalög til meginlands Kína, sem og Hong Kong og Macao, eftir að kínversk stjórnvöld kynntu refsiaðgerðir í júní gegn því sem yfirvöld kalla sjálfstæðisvilja Taívans frá aðskilnaðarsinnum.