Kínversk yfirvöld hafa kallað eftir því að fólk sýni sendlum meiri virðingu eftir að myndband fór í dreifingu sem sýndi sendil krjúpa niður og biðla til öryggisvarðar um að leyfa honum að fara.
Vörðurinn hafði stöðvað sendilinn eftir að hafa yfirgefið byggingu í kínversku borginni Hangzhou og sakaði hann um að hafa skemmt handrið sem hann prílaði yfir þegar hann var á leið í næstu sendingu.
Sendillinn hafði áhyggjur af því að hann myndi vera of seinn í næstu sendingu og ákvað því að stytta sér leið.
Atvikið vakti mikla reiði á kínverskum samfélagsmiðlum og hafa margir kallað eftir meiri vernd fyrir starfsgreinina. Um 12 milljónir manna starfa sem sendlar í Kína og ýtti heimsfaraldurinn undir meiri vöxt innan greinarinnar.
Sendlar í Kína eru, líkt og annars staðar í heiminum, undir miklum þrýstingi í daglegri vinnu og eru stanslaust í kappi við tímann. Margir innan geirans eru einnig háðir löngum vinnustundum, þéna innan við 150 krónur fyrir hverja sendingu og eru upp á náð og miskunn umsagna viðskiptavina.
8月12日,浙江杭州。网传西溪世纪中心小区,保安让兼职大学生外卖员下跪,还对其罚款200元。事后上百名骑手赶到小区为其声援讨说法,现场有大批警察维稳。骑手们质问小区物业“为什么叫骑手跪下” pic.twitter.com/1kljInURDw
— 李老师不是你老师 (@whyyoutouzhele) August 12, 2024
Eftir að myndbandið fór í dreifingu mættu margir sendlar til byggingarinnar og mótmæltu aðgerðum öryggisvarðanna. Myndbönd sýndu sendla öskrandi á öryggisverðina og kröfðust afsökunarbeiðni.
Kínverska sendlaþjónustan Meituan, sem hinn umræddi sendill vann fyrir, sagði að það myndi taka ábyrgð og greiða fyrir skemmdirnar. Fyrirtækið myndi eins tryggja að sendlar þess yrðu betur verndaðir.
Margir netverjar í Kína hafa bent á að fólk ætti að sýna hvert öðru meiri skilning í daglegum störfum. „Þeir eru báðir láglaunamenn. Af hverju þurfti þetta að enda svona? Það var heitt úti og þetta er erfitt fyrir okkur öll. Við skulum reyna að hafa meiri samúð hvert með öðru,“ skrifaði einn notandi.