Kínversk yfirvöld hafa ákveðið að meina öllum flugfélögum landsins að taka við fleiri afhendingum nýrra flugvéla frá bandaríska flugvélaframleiðandanum Boeing. Bloomberg greinir frá þessu en ákvörðunin er talin vera svar við nýjustu tollahækkun Donalds Trumps.

Stjórnvöld í Kína hafa jafnframt beðið kínversk flugfélög um að stöðva kaup sín á íhlutum og öðrum flugvélatengdum búnaði frá bandarískum fyrirtækjum.

Kínverjar hafa nýlega svarað tollahækkun Donalds Trumps með eigin 125% tollum á bandarískar vörur en sú hækkun ein og sér myndi meira en tvöfalda kostnað bandarískra flugvéla og íhluta fyrir kínversk flugfélög.

Þá kemur einnig fram að kínversk yfirvöld séu að íhuga að veita aðstoð til flugfélaga sem leigja Boeing-flugvélar og standa frammi fyrir hækkandi kostnaði.

Gengi Boeing hefur lækkað um allt að 4,6% í utanþingsviðskiptum eftir að Bloomberg greindi frá aðgerðunum en fram að mánudegi höfðu hlutabréf Boeing lækkað um meira en 10% á þessu ári.