Hlutabréf evrópskra koníakframleiðenda hafa tekið töluverða dýfu eftir að Kínverjar tilkynntu nýja tolla sem lagðir verða á sterkt vín sem kæmi frá ESB. Tilkynningin kemur í kjölfar ákvörðunar ESB um að tolllagningu á kínverska rafbíla.

Gengi Remy Cointreau hefur lækkað um 8,19%, Pernod Ricard hefur lækkað um 3,8% og LVMH lækkaði um meira en 4%.

Kínverska viðskiptaráðuneytið sagði í dag að tollarnir yrðu á bilinu 30,6% til 39% og myndu taka gildi á föstudaginn kemur. Ráðuneytið segir að ákvörðunin tengist undirboðs- og jöfnunartollum og að rannsókn á evrópskum vínframleiðendum hafi verið í gangi síðan í janúar.

Hlutabréf breska fyrirtækisins Diageo og Davide Campari-MIlano, sem framleiðir Aperol, lækkuðu einnig um tæp 1%.

Sérfræðingar telja að ákvörðun kínverskra stjórnvalda muni koma til með að hafa slæm áhrif á iðnaðinn, sem hefur þurft að glíma við mikinn samdrátt í neyslu eftir að hafa upplifað mikinn gróða á tímum heimsfaraldurs.