Hátt í 40 flutningaskip frá Brasilíu með sojabaunir frá landinu komu til Ningbo Zhoushan-hafnarinnar í Kína í síðasta mánuði en það samsvarar 48% aukningu milli ára. Þetta kemur fram á vef South China Morning Post og var staðfest af ríkismiðlinum CCTV.
Skipin mættu með samtals 700 þúsund tonn af sojabaunum og var magnið 32% meira en á sama tíma í fyrra.
Stigmagnandi viðskiptastríð Donalds Trumps við Kína hefur orðið til þess að Kínverjar eru farnir að leita til annarra landa til mæta landbúnaðareftirspurninni sem bandarískir bændur mættu fyrir aðeins örfáum mánuðum síðan.
Brasilískir bændur hafa notið góðs af þróuninni en fleiri vísbendingar eru um að Kínverjar séu að draga enn frekar úr þörf sinni á útfluttum bandarískum vörum. Í apríl hættu Kínverjar til að mynda við 12 þúsund tonna pöntun af bandarísku svínakjöti sem átti að fara til Kína en slík ákvörðun hefur ekki verið tekin síðan í maí 2020 í miðjum heimsfaraldri.
Donald Trump hefur lagt 145% toll á innfluttar kínverskar vörur til Bandaríkjanna og hafa Kínverjar svarað því með því að leggja 125% tolla á bandarískar vörur. Nýjustu tollarnir leggjast jafnframt ofan á þá tolla sem voru þegar til staðar.
Caleb Ragland, forseti bandarísku sojabaunasamtakanna, gaf út yfirlýsingu í síðasta mánuði þar sem hann hvatti til málamiðlunar. Hann sagði að það væri erfitt fyrir bandaríska bændur að kyngja tollunum þar sem Kína væri einn stærsti útflutningsmarkaður bandarískra sojabauna.
„Við biðjum bandarísk og kínversk stjórnvöld að taka pásu og sækjast eftir viðskiptasamningi sem mun ávarpa viðskiptaáhyggjur Bandaríkjamanna á uppbyggilegan hátt og varðveita þá markaði sem við reiðum okkur á,“ sagði Ragland.