Kína er fljótlega að verða einn verðmætasti áfangastaður fyrir frosinn þorsk frá Noregi en útflutningsverðmæti fisksins jókst um 29 milljónir norskra króna, eða 370 milljónir króna. Það samsvarar 155% aukningu miðað við sama tímabil í fyrra.
Útflutningsmagn fisksins frá Noregi til Kína nam 814 tonnum í júlí, eða 77% meira en í júlí 2023. Þá hafa rúmlega 10 þúsund tonn af þorski farið til Kína það sem af er ári.
Christian Chramer, framkvæmdastjóri Norska sjávarafurðaráðsins, segir í samtali við kínverska fjölmiðla að eftirspurn eftir norskum sjávarafurðum meðal kínverskra neytenda hafi aukist töluvert samhliða gengisfalli norsku krónunnar gagnvart evru og Bandaríkjadal.
Norðmenn slógu einnig met í júlí í útflutningi á síld og makríl en þjóðin flutti út meira en tíu þúsund tonn af síld að verðmæti 211 milljónir norskra króna. Það samsvarar 19% aukningu í verðmæti þrátt fyrir lítils háttar samdrátt í magni.
Útflutningur á makríl jókst verulega og sáu Norðmenn 50% aukningu í verðmæti og 39% aukningu í magnútflutningi.
Alls nam verðmæti á útflutningi á norskum sjávarafurðum í júlí 13 milljörðum norskra króna, sem er 727 milljóna króna aukning miðað við sama tímabil í fyrra. Norðmenn fluttu út sjávarafurðir til 111 landa í júlí og voru Pólland, Danmörk og Holland stærstu markaðir.