Kín­versk stjórn­völd eru smám saman að draga úr vægi bandarískra ríkis­skulda­bréfa í gjald­eyris­forða sínum, sem nemur yfir 3.200 milljörðum dala.

Þótt engin opin­ber yfir­lýsing hafi komið fram um breytta stefnu, hefur þróunin vakið at­hygli á alþjóð­legum fjár­málamörkuðum ekki síst í ljósi versnandi sam­skipta ríkjanna tveggja.

Upp­haf nýrrar skoðunar í Peking má rekja til ákvörðunar stjórn­valda í Was­hington um að endur­skipa stjórnir Fanni­e Mae og Freddi­e Mac, ríkis­stofnana sem mynda hryggjar­stykkið í bandarískum húsnæðislána­markaði, sam­kvæmt Financial Times.

Viðbrögð kín­verskra stjórn­valda voru skjót: Fjár­festingar­sér­fræðingar hjá Sta­te Administration of For­eign Exchange (Safe) hófu ítar­legt mat á þeim mögu­leika að færa hluta forðans yfir í verðbréf þessara stofnana, sem njóta óbeinnar ríkisábyrgðar.

Bandarísk ríkis­skulda­bréf hafa um ára­tuga­skeið verið burðarás í fjár­festingum kín­verska gjald­eyris­forðans, enda talin örugg.

Sí­fellt fleiri kín­verskir fræði­menn og ráðgjafar hafa varað við því að sú trygging sé ekki lengur sjálf­gefin.

„Tíminn þar sem ríkis­skulda­bréf Bandaríkjanna voru talin örugg fjár­festing er liðinn,“ skrifuðu tveir áhrifa­miklir fræði­menn við Chinese Academy of Social Sciences í apríl.

Þrátt fyrir vanga­veltur um að Kína gæti beitt ríkis­skulda­bréfa­eign sinni sem vopni í við­skipta­deilum hefur Safe fremur valið varfærna leið.

Frá árs­byrjun 2022 hefur Kína minnkað eign sína í bandarískum ríkis­skulda­bréfum um rúm­lega 27%, sam­kvæmt gögnum bandaríska fjár­málaráðu­neytisins. Í staðinn hefur Safe aukið fjár­festingar í svo­kölluðum agen­cy bonds, sem bera svipaða áhættu og ríkis­skulda­bréf, en bjóða aðeins hærri ávöxtun.

Hlut­fall gull­forða hefur jafn­framt vaxið hratt, úr 2% í 6% af heildar­eignum á innan við tveimur árum.

Horfa til annarra iðnríkja

Safe hefur einnig flutt hluta eignastýringar sinnar frá bandarískum sjóðum yfir til evrópskra og asískra stofnana, og í auknum mæli beint fjár­festingum til Hong Kong.

Þar með dregur Kína úr pólitískri áhættu sem fylgir eignum í lögsögu Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja.

Jafn­framt hefur fjár­festing í gull­forða og eignum utan hefðbundinna skulda­bréfa­markaða, s.s. í gagna­verum og inn­viðum í gegnum einka­rekinn fjár­festinga­arm Rosewood Invest­ment í New York, veitt Safe ákveðið svigrúm. Þó hafa þessar áherslur minnkað með aukinni pólitískri viðkvæmni gagn­vart kín­verskum fjár­festingum í bandarískum fyrir­tækjum.

Meðal til­lagna sem ræddar hafa verið eru: aukin kaup á skulda­bréfum annarra iðn­ríkja, nýting hluta forðans til að styrkja líf­eyris­sjóða­kerfið og fjöl­breyttari gjald­eyris­sam­setning.

Sér­fræðingar benda þó á að fáir markaðir geti boðið þá lausa­fjár­stöðu sem ríkis­skulda­bréf Bandaríkjanna gera og því verði breytingarnar að eiga sér stað með hægri og mark­vissri aðlögun.

„Það er ein­fald­lega skortur á öðrum gæða­eignum sem eru sam­bæri­legar að um­fangi,“ segir Eswar Pra­sad, hag­fræðipró­fessor við Corn­ell-háskóla.

Þótt Kína hafi enn ekki gripið til að­gerða sem setja markaði úr skorðum, hafa breytingarnar þegar haft áhrif á viðhorf annarra stórra aðila. Evrópskir líf­eyris­sjóðir og eignastýringar eru farnir að dreifa áhættu frekar til Evrópu og Kanada, ekki vegna að­gerða Kína, heldur vegna óvissunnar sem mögu­leg viðbrögð þeirra skapa.

„Við gætum þurft að fórna hluta ávöxtunar með fjöl­breyttara eigna­safni,“ sagði ráðgjafi stjórn­valda í Peking. „En ef spennan við Bandaríkin magnast enn frekar, getur það reynst mjög dýrt að halda áfram að treysta á ríkis­skulda­bréf þeirra.“