Kínversk stjórnvöld eru smám saman að draga úr vægi bandarískra ríkisskuldabréfa í gjaldeyrisforða sínum, sem nemur yfir 3.200 milljörðum dala.
Þótt engin opinber yfirlýsing hafi komið fram um breytta stefnu, hefur þróunin vakið athygli á alþjóðlegum fjármálamörkuðum ekki síst í ljósi versnandi samskipta ríkjanna tveggja.
Upphaf nýrrar skoðunar í Peking má rekja til ákvörðunar stjórnvalda í Washington um að endurskipa stjórnir Fannie Mae og Freddie Mac, ríkisstofnana sem mynda hryggjarstykkið í bandarískum húsnæðislánamarkaði, samkvæmt Financial Times.
Viðbrögð kínverskra stjórnvalda voru skjót: Fjárfestingarsérfræðingar hjá State Administration of Foreign Exchange (Safe) hófu ítarlegt mat á þeim möguleika að færa hluta forðans yfir í verðbréf þessara stofnana, sem njóta óbeinnar ríkisábyrgðar.
Bandarísk ríkisskuldabréf hafa um áratugaskeið verið burðarás í fjárfestingum kínverska gjaldeyrisforðans, enda talin örugg.
Sífellt fleiri kínverskir fræðimenn og ráðgjafar hafa varað við því að sú trygging sé ekki lengur sjálfgefin.
„Tíminn þar sem ríkisskuldabréf Bandaríkjanna voru talin örugg fjárfesting er liðinn,“ skrifuðu tveir áhrifamiklir fræðimenn við Chinese Academy of Social Sciences í apríl.
Þrátt fyrir vangaveltur um að Kína gæti beitt ríkisskuldabréfaeign sinni sem vopni í viðskiptadeilum hefur Safe fremur valið varfærna leið.
Frá ársbyrjun 2022 hefur Kína minnkað eign sína í bandarískum ríkisskuldabréfum um rúmlega 27%, samkvæmt gögnum bandaríska fjármálaráðuneytisins. Í staðinn hefur Safe aukið fjárfestingar í svokölluðum agency bonds, sem bera svipaða áhættu og ríkisskuldabréf, en bjóða aðeins hærri ávöxtun.
Hlutfall gullforða hefur jafnframt vaxið hratt, úr 2% í 6% af heildareignum á innan við tveimur árum.
Horfa til annarra iðnríkja
Safe hefur einnig flutt hluta eignastýringar sinnar frá bandarískum sjóðum yfir til evrópskra og asískra stofnana, og í auknum mæli beint fjárfestingum til Hong Kong.
Þar með dregur Kína úr pólitískri áhættu sem fylgir eignum í lögsögu Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja.
Jafnframt hefur fjárfesting í gullforða og eignum utan hefðbundinna skuldabréfamarkaða, s.s. í gagnaverum og innviðum í gegnum einkarekinn fjárfestingaarm Rosewood Investment í New York, veitt Safe ákveðið svigrúm. Þó hafa þessar áherslur minnkað með aukinni pólitískri viðkvæmni gagnvart kínverskum fjárfestingum í bandarískum fyrirtækjum.
Meðal tillagna sem ræddar hafa verið eru: aukin kaup á skuldabréfum annarra iðnríkja, nýting hluta forðans til að styrkja lífeyrissjóðakerfið og fjölbreyttari gjaldeyrissamsetning.
Sérfræðingar benda þó á að fáir markaðir geti boðið þá lausafjárstöðu sem ríkisskuldabréf Bandaríkjanna gera og því verði breytingarnar að eiga sér stað með hægri og markvissri aðlögun.
„Það er einfaldlega skortur á öðrum gæðaeignum sem eru sambærilegar að umfangi,“ segir Eswar Prasad, hagfræðiprófessor við Cornell-háskóla.
Þótt Kína hafi enn ekki gripið til aðgerða sem setja markaði úr skorðum, hafa breytingarnar þegar haft áhrif á viðhorf annarra stórra aðila. Evrópskir lífeyrissjóðir og eignastýringar eru farnir að dreifa áhættu frekar til Evrópu og Kanada, ekki vegna aðgerða Kína, heldur vegna óvissunnar sem möguleg viðbrögð þeirra skapa.
„Við gætum þurft að fórna hluta ávöxtunar með fjölbreyttara eignasafni,“ sagði ráðgjafi stjórnvalda í Peking. „En ef spennan við Bandaríkin magnast enn frekar, getur það reynst mjög dýrt að halda áfram að treysta á ríkisskuldabréf þeirra.“