Algeng regla í viðskiptastríðum segir að besta hefndaraðgerðin sé að gera ekki neitt og standa fjarri meðan andstæðingur þinn er í raun að valda sjálfum sér efnahagslegum skaða, sama hversu mikið hann reynir að ögra þér.
Það hefur verið nálgunin með mörg hagkerfi sem Donald Trump hefur lagt innflutningstolla á en með Kína hefur stefnan verið öðruvísi. Kínverjar svöruðu fyrir sig með 34% innflutningstoll á allar bandarískar vörur.
David Fickling hjá Bloomberg telur að þetta sé vegna þess að Kína, stærsti framleiðandi heims, hefur þegar eytt áratugum í að byggja upp hagkerfi sem er nú þegar vel varið þegar kemur að áföllum viðskiptastríðs.
„Skoðum þá hluti sem Bandaríkjamenn flytja inn frá Kína. Algengustu vörurnar eru þær sem þú finnur í Walmart eða á Amazon, þ.e.a.s. snjallsímar, tölvur, leikjatölvur, húsgögn, leikföng og fatnaður. Ef þú skellir 54% toll á þessar vörur, eins og Trump hefur gert, munu bandarískir neytendur fljótlega fara að finna fyrir því.“
Kínverjar hafa þá byggt upp ráðandi stöðu þegar kemur að útflutningi til Bandaríkjanna sem gæti gert það erfitt fyrir Bandaríkjamenn að finna sér nýja birgja.
Þar að auki er útflutningur bandarískra vara til Kína allt öðruvísi. Kínverskir neytendur reiða sig mun minna á dagsdaglegar vörur sem koma þaðan en öfugt. Bandaríkjamenn hafa flutt út vörur eins og bíla, þotuhreyfla og sojabaunir til Kína en Kínverjar búa yfir fjölbreyttum markaði sem þeir geta nýtt og munu ekki finna fyrir eins miklu höggi og Bandaríkjamenn.
Bæði löndin hafa verið að aftengjast hvort öðru alveg frá því fyrsta viðskiptastríð Trumps hófst árið 2018. Kínverjar hafa hins vegar gert það með skilvirkari hætti en útflutningur Bandaríkjamanna til Kína hefur síðan þá lækkað um 6,6 prósentustig niður í 17,2%.
Á sama tíma hefur hlutfall kínverskra vara sem fluttar eru út til Bandaríkjanna aðeins lækkað um fjögur prósentustig í 18,5%. Xi Jinping hefur þar að auki notað þennan tíma í að byggja upp tengsl við aðrar þjóðar á meðan Trump heldur áfram að refsa eigin bandamönnum með tollum sem eru aðeins mildari en þeir sem hafa verið lagðir á Kína.