Kínverska fyrirtækið WeRide stefnir að því að færa út kvíarnar á þessu ári með sjálfkeyrandi leigubílum sínum en það býst við aukinni eftirspurn á alþjóðlegum vettvangi. WeRide rekur nú þegar sjálfkeyrandi bíla í 30 borgum í níu löndum.

Fyrirtækið segist vera það eina í heiminum sem hefur fengið leyfi fyrir sjálfkeyrandi bíla í fjórum löndum, þar á meðal Kína, Singapúr, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Bandaríkjunum.

„Við viljum þjónusta alþjóðlegan markað. Hvar sem við finnum þörf fyrir sjálfkeyrandi leigubíla og rútur, þangað viljum við fara,“ segir Tony Han, stofnandi og framkvæmdastjóri WeRide í kínversku borginni Guangzhou.

Slík tækni, sérstaklega frá Kína, hefur þó verið undir miklu eftirliti á Vesturlöndunum og á enn eftir að koma í ljós hvort WeRide geti þrifist á alþjóðlegum markaði í ljósi aukinnar pólitískrar spennu.