Haraldur Þorkelsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Eimverk Distillery, segir að velgengni fyrirtækisins snúist fyrst og fremst um að gera hlutina nógu erfiða. Fyrirtækið gerir allt frá grunni, ræktar eigið bygg og notar einungis íslenskt vatn.

Hann segir Eimverk leggja mikla áherslu á að framleiða alvöru íslenska vöru þar sem uppruninn sé stór sölupunktur þegar kemur að því að flytja út til landa eins og Kína.

„Það hefur virkað vel fyrir okkur í Kína vegna þess að Kínverjinn er mjög hrifinn af Íslandi. Honum finnst þetta áhugavert land og aðalatriðið fyrir okkur er að koma því vel til skila að þetta sé alvöru íslensk vara.“

Haraldur segir að það komi Kínverjum oft á óvart hversu ódýr varan sé og að þeir eigi oft erfitt með að trúa því að um sé að ræða alvöru íslenskt viskí miðað við lágt vöruverð.

Þann 5. nóvember nk. hefst gríðarstór innflutningssýning í Shanghai undir nafninu CIIE – China International Import Expo. Sýningin stendur yfir í fimm daga og munu fyrirtæki frá meira en 70 löndum og samtökum kynna vörur sínar. Þar á meðal verða íslensku fyrirtækin Eimverk, Omnom, Kavita, Algalíf, King Eider og Oceanix.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.