Kínverjar fóru í samtals 274 milljónir innanlandsferða í byrjun mái en fyrstu fimm dagar maímánaðar eru frídagar þar í landi. Þetta samsvarar 20% aukningu frá sama tímabili árið 2019, áður en heimsfaraldur skall á.

Samkvæmt opinberum tölum eyddu kínverskir ferðamenn samtals 21 milljarði dala yfir frídagana en það er tvöfalt meira en þeir eyddu á sama tíma í fyrra.

„Það má segja að þetta séu ákveðin tímamót í kínverskri ferðaþjónustu. Markaðurinn er kominn umfram það sem hann var árið 2019,“ segir Dai Bin, forseti kínverska ferðmálaakademíunnar.

Utanlandsferðir Kínverja eru einnig farnar að aukast en yfir frívikuna ferðuðust rúmlega 1,2 milljónir Kínverja til útlanda á hverjum degi og er það tvöföldun frá því í fyrra. Fyrir heimsfaraldur voru Kínverjar einn mikilvægasti hópur ferðamanna en 150 milljónir Kínverja ferðuðust til útlanda á hverju ári. Vinsælustu erlendu áfangastaðir kínverskra ferðamanna eru Hong Kong, Taíland og Singapúr.

Þrátt fyrir þessa aukningu utanlandsferða Kínverja er því hins vegar spáð að innanlandsferðalög verði mun fleiri þar sem framboð á bæði flugvélum og áhöfnum til utanlandsferða er enn takmarkað.