Samfélagsmiðillinn TikTok stendur nú frammi fyrir þeim möguleika að smáforritið verði með öllu bannað í Bandaríkjunum. Bandarísk stjórnvöld hafa áður lýst yfir áhyggjum af TikTok en þau telja forritið vera þjóðaröryggisógn.
Yfirgnæfandi meirihluti þingmanna fulltrúadeildar Bandaríkjaþings samþykkti frumvarpið á miðvikudaginn sem gæti bannað TikTok en frumvarpið naut stuðnings bæði meðal demókrata og repúblikana.
Frumvarpið felur í sér að kínverskir eigendur samfélagsmiðilsins, ByteDance, þurfa að selja starfsemina, innan 180 daga eftir gildistöku frumvarpsins. Ef það gerist ekki verður TikTok bannað í landinu.
Hins vegar á enn eftir að kjósa um frumvarpið í öldungadeildinni en Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur þó sagt að hann muni samþykkja frumvarpið ef það endar á hans borði.
Víðs vegar boð og bönn
Kínversk stjórnvöld hafa brugðist harkalega við þessari ákvörðun og sagði meðal annars Wang Wenbin, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, á blaðamannafundi í Peking í gær að frumvarpið brjóti gegn samkeppni og réttlæti.
Afstaða kínverskra stjórnvalda þykir þó einkennileg að því leytinu til að bandarískir samfélagsmiðlar hafa verið bannaðir í Kína í mörg ár. Google, Youtube, Twitter, Instagram, WhatsApp og Facebook voru eitt sinn leyfð í landinu en voru öll tekin úr umferð koll af kolli.

Leitarvél Google er bönnuð í Kína en fyrirtækið yfirgaf landið árið 2010, aðeins fjórum árum eftir að leitarvélin fór í loftið. Netrisinn neitaði þá að verða að beiðni kínverskra stjórnvalda um að ritskoða efni vefsíðu sinni. Meðal annars var bannað að leita að málefnum á borð við sjálfstæðisbaráttu Tíbet og Falun Gong-hreyfinguna.
Youtube er einnig óaðgengilegt í landinu en vefsíðan var bönnuð í mars 2009 eftir að myndbönd birtust sem sýndu kínverska lögreglumenn berja niður mótmælendur í Tíbet. Vefsíðan hafði þar á undan verið í fimm mánaða banni frá 2007 til 2008.
Á sama tíma, þegar óeirðir geisuðu í Xinjiang í norðvesturhluta Kína, voru samfélagsmiðlarnir Facebook og X (þá Twitter) bannaðir en stjórnvöld höfðu áhyggjur af því að fólk myndi nota miðlana til að skipuleggja mótmæli sín á milli.
Instagram var hins vegar leyft til ársins 2014 en í september á því ári hófust hin svokölluðu regnhlífarmótmæli í Hong Kong. Þar komu þúsundir Hong Kong-búa saman og mótmæltu afskiptum kínverskra yfirvalda á kosningakerfi Hong Kong. Á hápunkti mótmælanna var svo tekin ákvörðun um að banna smáforritið í Kína.
Störf og samskipti í húfi
Kínversk stjórnvöld vilja þó meina að bönnin séu ekki eins og að Bandaríkjamenn vilji einungis græða á velgengni TikTok. Talsmaður utanríkisráðuneytisins hefur sakað Bandaríkin um að stela TikTok og að hugsa eins og ræningjar.
Shou Zi Chew, forstjóri TikTok, hefur einnig bent á að bann samfélagsmiðilsins gæti haft veruleg áhrif á bandarískt efnahagslíf. Mörg fyrirtæki, sérstaklega smáfyrirtæki, nota TikTok til að auglýsa vörur og reiða margir ungir stafrænir framleiðendur á forritið.
„Ég kaupi hluti frá smáfyrirtækjum og auglýsi það á TikTok og styð við bakið á þeim. Öll þessi fyrirtæki eru að fara þjást og við verðum að hafa áhyggjur af því,“ segir TikTok-notandinn Ophelia Nichols en hún er með fleiri en 12 milljón fylgjendur á miðlinum.
Frumvarpið hefur vissulega fengið meiri athygli í Bandaríkjunum en í Kína en umræðan rataði þó inn á samfélagsmiðilinn Weibo (kínverska útgáfan af Twitter). Rúmlega 78 milljón manns lásu fréttir um mögulega bannið og fóru umræður fljótlega af stað.
Einn notandi spurði hvers vegna allar hliðar úr viðskiptalífinu þurfi að enda í spjallborðsumræðu um þjóðaröryggi. Annar benti á að þetta brjóti gegn bandarískum gildum um frjáls viðskipti og segir að Kína ætti að svara í sömu mynt.
„Við höfum nú þegar ekki getað notað Google, Twitter og Facebook í meira en áratug. Ég held að við séum langt á undan Bandaríkjunum þegar kemur að því að hindra notkun samfélagsmiðla þeirra,“ svarar annar notandi.