Stærsta kaffihúsakeðja Kína, Luckin, opnaði hátt í 6.000 ný kaffihús á síðasta ári en það samsvarar rúmlega einu nýju kaffihúsi á 90 mínútna fresti. Fyrirtækið kynnti einnig 119 nýjar vörur eins og americano-kaffi með eplum og latte sem unnið er úr smjöri.
Kínverjar hafa undanfarin ár gjörbreytt neysluvenjum sínum þökk sé aukinni samkeppni og efnahagsbreytingum á tímum Covid og hefur WSJ tekið þessa þróun fyrir.
Í fleiri þúsund ár voru Kínverjar þekktir fyrir mikla teneyslu en á undanförnum áratugum hefur það breyst. Frá því Starbucks opnaði sitt fyrsta útibú í Peking hefur kaffineysla í landinu stóraukist en nú eru það rótgróin kínversk kaffifyrirtæki sem hafa tekið við keflinu.
Hið mikla kaffiæði sem nú sést á sér rætur að rekja til ársins 2022 þegar nokkrir fyrrum stjórnendur Luckin hættu hjá fyrirtækinu vegna hneykslismáls sem tengdist bókhaldi fyrirtækisins og stofnuðu sitt eigið fyrirtæki, Cotti.
Fyrirtækin tvö hófu blóðugt verðstríð og lækkuðu verð á kaffibolla niður í tæpar 170 krónur, eða um þriðjung þess sem Starbucks í Kína rukkar fyrir latte. Aðrir samkeppnisaðilar á borð við Lucky Cup hafa einnig verið að hasla sér völl á kínverska kaffimarkaðnum.
Cotti hefur einnig riðið á vaðið með nýjum, eða óhefðbundnum, bragðtegundum en á síðasta ári kynnti fyrirtækið til leiks kaffi með ávaxtabragði. Það hefur einnig boðið upp á fjólubláa þeytinga sem blanda saman vínberjum og kaffi.
Slíkir valmöguleikar eru farnir að verða venjulegur hluti af dagsdaglegu lífi Kínverja en neytendamarkaðurinn þar hefur sjaldan séð jafn mikla samkeppni. Rafbílaframleiðendur eru þá einnig farnir að selja rafbíla með innbyggða ísskápa og karíókívélar.