Kínverska samkeppniseftirlitið segir að það muni taka fyrir kaup BlackRock á tveimur höfnum við Panamaskurðinn, sem reknar eru af kínverska fyrirtækinu Hutchison Port Holdings.
Hutchison Port Holdings er dótturfélag CK Hutchison Holdings en það er samsteypufélag í Hong Kong sem stofnað var af Li Ka-shing. Fyrirtækið er einnig með hafnarstarfsemi í 24 öðrum löndum.
„Við munum endurskoða samninginn í samræmi við lög til að vernda sanngjarna samkeppni og standa vörð um almannahagsmuni samfélagsins,“ segir í tilkynningu frá kínverska samkeppniseftirlitinu.
Eignarhald fyrirtækisins hefur valdið pólitískum usla undanfarin misseri og þá sérstaklega eftir endurkosningu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, sem hefur meðal annars haldið því fram að Panamaskurðurinn sé í eigu Kínverja.
Fyrr í þessum mánuði samþykkti hins vegar Hutchison Holdings að selja hafnirnar sínar, Balboa og Cirstóbal, við skurðinn til BlackRock fyrir rúmlega 23 milljarða dala. Fyrirtækin vonast til að undirrita samninginn fyrir 2. apríl.