Kínverski ríkisrekni flugvélaframleiðandinn COMAC stefnir að því að hefja flug til Suðaustur-Asíu með C919-flugvélum sínum fyrir 2026. Þetta yrði í fyrsta sinn sem flugvélin flýgur út fyrir landamæri Kína í áætlunarflugi.
COMAC (e. Commercial Aircraft Corporation of China) stefnir einnig á evrópska vottun fyrir C919-vélarnar á þessu ári að sögn Yang Yang, framkvæmdastjóra markaðsmiðstöðvar fyrirtækisins.
Fyrsta flugfélagið til að hefja áætlunarflug með C919-vélarnar var China Eastern Airlines. Til að byrja með voru vélarnar aðeins notaðar í innalandsflug en 1. janúar byrjaði flugfélagið að fljúga til Hong Kong, en flug milli Hong Kong og meginlandsins eru álitin utanlandsflug.
Air China og China Southern Airlines notast einnig við C919-vélar en Kínverjar vildu hanna flugvél sem gæti keppt við Boeing 737 og Airbus A320.
„Við vonumst til að auka starfsemi C919-flugvéla innan Kína til að geta greint vandlega frá hugsanlegum vandamálum áður en við færum út kvíarnar og hefjum flug til Suðaustur-Asíu,“ segir Yang.
COMAC er með höfuðstöðvar í Shanghai og vonast til að komast inn á vestrænan markað á meðan keppinautar fyrirtækisins glíma við ýmsar áskoranir í tengslum við aðfangakeðjur og atvinnumál.
Árið 2024 afhenti COMAC alls 12 nýjar C919-vélar til þriggja kínverskra ríkisflugfélaga. Fyrirtækið sagði árið 2023 að það megi búast við að árleg framleiðslugeta C919 verði 150 á fimm árum.