Seðlabanki Kína tilkynnti í morgun um að hann hefði ákveðið að lækka grunnvexti til eins árs – sem er gjarnan notað sem viðmið fyrir útlán til fyrirtækja – um 0,25 prósentustig, eða úr 3,35% í 3,1%.

Jafnframt lækkaði hann grunnvexti sína til fimm ára, sem hafa áhrif á verðlagningu húsnæðislána, úr 3,85% í 3,6%. Bankinn lækkaði síðasta umrædda grunnvexti í júlí.

Vaxtalækkanir bankans eru sagðar merki um að þrýsting kínverska stjórnvalda um að ná 5% hagvexti fyrir árið 2024, samkvæmt umfjöllun Financial Times.

Ákvörðun seðlabankans var viðbúin en seðlabankastjórinn Pan Gongsheng gaf til kynna á ráðstefnu í Beijing á föstudaginn að grunnvextir bankans yrðu lækkaðir um 20-25 punkta.

Jafnframt gaf hann til kynna að bankinn gæt lækkað bindiskyldu lánastofnana um 25-50 punkta til viðbótar fyrir árslok.