Samkvæmt opinberum tölum frá október 2023 var einn af hverjum fimm Kínverjum á aldrinum 16 til 24 ára atvinnulaus. Þau gögn eru nýjustu gögnin sem fáanleg eru því það var um það leyti sem kínverska ríkisstjórnin ákvað að hætta að birta tölur um atvinnuleysi ungs fólks í landinu.
Milljónir ungra Kínverja sitja nú uppi með háskólagráður og glíma við framtíð sem þau bjuggu sig engan veginn undir. Viðbrögð þessarar kynslóðar við þessari stöðu munu móta örlög næststærsta hagkerfis heims.
Að sögn Xiang Bao, prófessor í mannfræði við Oxford-háskóla, er að eiga sér stað bylting hjá kínversku Z-kynslóðinni svokallaðri en hann sérfræðir sig í að tala við ungt fólk í heimalandi sínu.
„Allt líf ungs fólks hefur mótast af þeirri hugmynd að ef þú ert duglegur að læra þá bíður þín vinna og hálaunað og mannsæmandi líf að lokinni þessari erfiðisvinnu. Og nú eru þau að komast að því að það er lítið til í þessu loforði,“ segir Bao.
Tækifæri ungra Kínverja hafa dregist saman hægt og rólega í gegnum árin en kínverska hagkerfið hefur orðið illa fyrir barðinu á aðgerðum stjórnvalda í gegnum heimsfaraldur. Kínverska ríkið hefur reynt að ná tökum á ástandinu en mikil óvissa ríkir nú fyrir bæði frumkvöðla og erlenda fjárfesta.
Ástandið var mjög sýnilegt á nýlegri atvinnusýningu í höfuðborginni Peking þar sem fjöldi fyrirtækja bauð upp á láglaunuð störf, til að mynda sölustöður við að selja tryggingar eða lækningatæki.
Einn nýútskrifaður háskólanemi að nafni Tianyu var ekki bjartsýnn um framtíðaratvinnutækifæri. Hann lærði hugbúnaðarverkfræði og segir að þrátt fyrir eigin kunnáttu séu margir atvinnuumsækjendur með svipaða ferilskrá og hann og er því erfitt að finna góða vinnu.
Hann segir að nokkrir af vinum hans stefni á ríkisstörf miðað við hversu erfiðlega gengur í einkageiranum en eúmlega þrjár milljónir Kínverja bættust aukalega við umsækjendahópinn til að taka embættismannaprófið í nóvember síðastliðnum til að reyna að tryggja sér ríkisstarf.
Ein stelpa sem kallar sig Joy tekur í sama streng en hún tók nýlega við starfi við að selja fræðsluefni. Það er langt frá því að vera draumastarf hennar, en hún lítur á starfið sem leið til að öðlast reynslu. „Þessi störf hafa ekki góðar framtíðarhorfur. Fyrirtækin hér bjóða lág laun og það er einnig auðvelt að skipta um fólk. Þess vegna vilja flestir vera heima.“
Foreldrar hennar hafa hins vegar miklar áhyggjur, en hún kemur frá litlu fjallaþorpi í um 400 kílómetra fjarlægð frá Peking. Hún var sú fyrsta í sinni fjölskyldu til að komast í háskóla og var faðir hennar svo stoltur af henni að hann hélt veislu henni til heiðurs með 30 gestum.
„Þau ætlast til að ég eigi betra líf og betri vinnu og tekjur en þeirra kynslóð þegar ég útskrifaðist úr háskóla. Þeir búast við því að eftir að hafa stutt við menntun mína að ég gæti að minnsta kosti fengið vinnu, en ég mun krefjast þess að fara mína eigin braut á mínum eigin hraða.“
Mörg kínversk ungmenni segja nú að það þurfi að endurskrifa kínverska drauminn. Hann getur ekki lengur aðeins snúist um velmegun, vöxt og þjóðarstyrk.
Í áramótaávarpi Xi Jinping sagði forsetinn að Kína hafi staðist „prófanir vinda og rigninga“ og lýsti fullu trausti á framtíðina. Spurningin er hins vegar hvort þjóðernissinnaður kínverskur draumur passi nú við vonlausa, eirðarlausa kynslóð sem er ekki viss um það hvernig framtíðin muni líta út.