Carlos Tavares, forstjóri bílaframleiðandans Stellantis, telur að kínverskir bílar muni ná 10% markaðshlutdeild á evrópska markaðnum á næstu árum.
Margir forstjórar vestrænna bílaframleiðenda telja þó að það verði ekki svo einfalt fyrir kínverska bílaframleiðendur að ná sama árangri í Evrópu og þeir hafa náð í Kína. Bílakaupendur í Evrópu séu að meðaltali eldri en fimmtíu ára og tryggir ákveðnum bílamerkjum. Á sama tíma sé meðalaldur bílakaupenda í Kína um þrítugt, og sá hópur sé opnari fyrir nýrri vörumerkjum.
„Stærstu hindranirnar fyrir kínverska bílaframleiðendur eru ekki vörurnar sjálfar, heldur dreifikerfið og vörumerkjavitund,“ segir José Asumendi, sérfræðingur hjá JPMorgan.
Matthias Schmidt bílagreinandi telur að markaðshlutdeild kínverskra bílaframleiðenda muni líklegast ekki fara yfir 12% í náinni framtíð, bæði vegna verndarstefnu ESB en einnig vegna fjölbreytts framboðs evrópskra rafbíla. Kínverskir bílaframleiðendur voru með 8,3% markaðshlutdeild í Vestur-Evrópu í ágúst.
1 árs ferli í Kína en 4 ár í Evrópu
Forysta Kína á rafbílamarkaði snýst ekki síst um getu þeirra til að þróa rafbíla á mun skemmri tíma en kollegar þeirra vestanhafs og í Evrópu, að því er kemur fram í grein FT. Þannig tekur það kínverska bílaframleiðendur eitt ár að þróa nýjan bíl á meðan það tekur í kringum fjögur ár fyrir evrópska bílaframleiðendur, sem þurfa að fullnægja ítrustu kröfum ESB.
Andy Palmer, ráðgjafi og fyrrum forstjóri Nissan og Aston Martin, segir að evrópskir bílaframleiðendur verði að vinna með þeim kínversku, sérstaklega hvað varðar þróun á rafhlöðutækni. „Hvað gerðu Kínverjar, hvað gerðu Japanir og hvað gerðu Kóreumenn þegar þeir voru á eftir í tækni? Þeir unnu saman.“
Luca de Meo, forstjóri Renault, viðurkennir að evrópski bílaiðnaðurinn og birgjar hans „þurfi á aðstoð að halda“ frá Kínverjum, sérstaklega er varðar framboð á rafhlöðum.
Á síðasta ári var Kína stærsti útflutningsaðilinn á nýjum bílum, og þá hefur markaðshlutdeild þeirra aukist heima fyrir. Þannig hefur hlutdeild erlendra bílaframleiðenda á kínverskum markaði dregist hratt saman, farið úr 64% á fyrstu átta mánuðum ársins 2020 niður í 37% árið 2024..
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild hér.