Hátt í 22 kínverskir ríkisborgarar og einn maður frá Kamerún hafa fengið þunga fangelsisdóma vegna nettengdra glæpa í Sambíu. Samkvæmt BBC fengu sumir meðlimir hópsins, þar á meðal höfuðpaurinn Li Xianlin, allt að 11 ára fangelsisdóm.

Meðlimirnir voru einnig sektaðir um 1.500 – 3.000 dali hver en fórnarlömb hópsins náðu frá Singapúr til Perú og Sameinuðu arabísku furstadæmanna.

Réttarhöldin í Sambíu hafa staðið yfir í nokkrar vikur og hafa nú allir meðlimir játað á sig sök. Þeir sem voru fangelsaðir nú fyrir helgi voru einnig meðlimir stærri hóps sem handteknir voru í apríl í tengslum við það sem yfirvöld kölluðu fáguð netsvindlasamtök.

Meðal þeirra glæpa sem búið er að upplýsa var árás á kínverskt fyrirtæki í höfuðborginni Lusaka. Tugir ungra Sambíumanna voru einnig handteknir eftir að hafa verið ráðnir til að starfa í símaveri sem sveik pening úr fólki.

Meira en 13 þúsund SIM-kort, bæði innlend og erlend, voru einnig gerð upptæk og fundust jafnframt skotvopn og bílar í eigu Kínverjanna sem voru dæmdir.