Kínverski auðjöfurinn Guo Wengui hefur verið sakfelldur af dómstóli í Bandaríkjunum fyrir svik en hann mun hafa stolið rúmlega einum milljarði dala frá fylgjendum sínum á netinu.

Guo býr í Bandaríkjunum í sjálfskipaðri útlegð og hefur verið mikill gagnrýnandi kínverska kommúnistaflokksins. Hann var þá einnig félagi Stephen Bannon, fyrrverandi yfirmanns Hvíta hússins undir stjórn Donald Trump.

Hann var meðal annars fundinn sekur um fjárkúgun, fjársvik og peningaþvætti. Refsing Guo verður kveðin upp 19. nóvember nk. en hann gæti átt yfir höfði sér áratugalanga fangelsisvist. Hann hefur setið í fangelsi síðan hann var handtekinn í mars 2023.

Saksóknarar sögðu að Guo hefði þegið meira en einn milljarð dala frá fylgjendum á netinu sem gengu til liðs við hann í fjárfestingum og rafmyntaviðskiptum frá 2018 til 2023. Peningurinn var svo notaður til að fjármagna lúxuslíf hans en Guo bjó til að mynda í 50 þúsund fermetra höll, keyrði um á milljón dala Lamborghini og átti 37 milljón dala snekkju.

Lögfræðingar hans reyndu að halda því fram að Guo hefði ekki verið drifinn áfram af peningum, heldur væri hann heitur andstæðingur kínverska stjórnmálakerfisins og að lífsstíll hans hefði verið gagnrýni á kínverska kommúnistaflokkinn.