Kínverska drykkjarfyrirtækið Nongfu Spring hefur krafist þess að neytendastofa í Hong Kong biðjist afsökunar á því að hafa skaðað vörumerki sitt eftir að hafa birt skýrslu sem innihélt upplýsingar um hátt magn brómats í vatnsflöskum fyrirtækisins.

Nongfu Spring var stofnað af ríkasta manni Kína, Zhong Shanshan, og er söluhæsta fyrirtækið þar í landi þegar kemur að vatnsflöskum með 11,1% markaðshlutdeild.

Hlutabréf fyrirtækisins í Hong Kong lækkuðu um 3% í dag eftir birtingu skýrslunnar. Skýrslan innihélt upplýsingar um magn sótthreinsaðra aukaafurða eins og brómats og klóróforms. Rannsóknir á 30 flöskum sýndu að þær innihéldu 3 míkrógrömm af brómati á hvern lítra.

Brómat, sem myndast fyrst og fremst þegar óson er notað til að sótthreinsa vatn, getur valdið ógleði, kviðverkjum, uppköstum og niðurgangi ef þess er neytt í miklu magni.

„Þín samtök hafa valdið ótta meðal kínverskra neytendahópa og hafa valdið verulegu tapi fyrir Nongfu Spring, þar sem vörurnar eru í fullu samræmi við viðeigandi reglur,“ segja lögfræðingar Nongfu Spring.