Wang Bin, fyrrverandi stjórnarformaður China Life Insurance, hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi af kínverskum dómstólum. Hann var fundinn sekur um að hafa þegið 44,6 milljónir dala í mútur og einnig fyrir að hafa falið tæplega 7,5 milljónir dala í erlendum bankareikningum.
Hann var í raun dæmdur til dauða með tveggja ára frestun en eftir tvö ár verður refsingunni svo breytt í lífstíðarfangelsi án skilorðs.
Wang, sem var einnig háttsettur meðlimur kommúnistaflokksins, er nýjasti yfirmaður kínverskrar fjármálastofnunar til að lenda í klóm tveggja ára baráttu Xi Jinping gegn spillingu.
Árið 2021 var Lai Xiaomin, fyrrverandi stjórnarmaður ríkisstýrða eignastýringarfyrirtækisins Huarong, tekinn af lífi eftir að hafa verið fundinn sekur um spillingu og tvíkvæni. Sama ár var Hu Huaibing, fyrrverandi formaður kínverska þróunarbankans, dæmdur í lífstíðarfangelsi í stórfelldu mútumáli.
Samkvæmt úrskurði mun Wang hafa nýtt sér stöðu sína sem varaforseti Landbúnaðarþróunarbanka Kína og forseti Samskiptabanka Kína, sem hann gegndi frá 1997 til 2021, til að aðstoða ákveðin fyrirtæki og einstaklinga í lánveitingamálum og fjármögnun.
Hann þáði svo mútur annaðhvort beint eða í gegnum ættingja.
Wang, sem er 64 ára gamall, fæddist í Heilongjiang-héraði í norðurhluta Kína og gekk í flokkinn árið 1985. Hann byrjaði að vinna hjá tryggingarfélaginu árið 2012 en rannsókn á spillingarmáli hans hófst í janúar 2022 og sagði hann þá af sér í kjölfarið