Arion banki og PCC hafa slitið formlegum viðræðum um möguleg kaup PCC á kísilverksmiðjunni í Helguvík. Samhliða hefur Arion banki sagt upp raforkusamningi við Landsvirkjun þar sem framleiðsla kísils var forsenda samningsins.
„Því er allt útlit fyrir að kísilverksmiðjan í Helguvík verði ekki gangsett á ný og að hún verði flutt eða henni fært nýtt hlutverk,“ segir í tilkynningu Arion.
Arion segir að í kjölfar viðræðuslit sé muni bankinn horfa til sölu á þeim innviðum sem eru til staðar í Helguvík, annað hvort til flutnings eða með það að markmiði að koma þar upp annars konar starfsemi en kísilframleiðslu.
„Viðræður eru þegar í gangi við nokkra aðila, innlenda og erlenda, í þessu sambandi. Ákvörðunin hefur ekki áhrif á bókfært verðmat eignarinnar, en verðmat verður endurmetið með hliðsjón af þróun þessara viðræðna.“
Eignarhlutur Arion í Stakksberg ehf. var bókfærður á ríflega 1,4 milljarða króna í lok september síðastliðnum. Stakksberg tapaði tæplega 1,4 milljörðum króna í fyrra og 2,8 milljörðum árið
PCC taldi ekki grundvöll fyrir áframhaldandi viðræðum
Arion banki eignaðist kísilverksmiðjuna árið 2018 í kjölfar gjaldþrots fyrri eiganda, United Sílicon hf. Síðan þá hefur dótturfélag bankans, Stakksberg ehf., unnið endurbótaáætlun fyrir verksmiðjuna og leitað að hæfum kaupendum. Arion segir að í kjölfar samráðs við viðeigandi stjórnvöld hafi fjárfestar sýnt verksmiðjunni umtalsverðan áhuga.
Í upphafi þessa árs gekk bankinn til einkaviðræðna við PCC sem hefur starfrækt kísilverksmiðju á Bakka við Húsavík. Arion segist hafa metið það svo að PCC byggi yfir nauðsynlegri þekkingu og reynslu til að starfrækja verksmiðjuna í Helguvík.
„PCC hefur undanfarið kynnt metnaðarfull áform sín fyrir ýmsum hagaðilum og er niðurstaða þeirrar vinnu að félagið telur ekki grundvöll fyrir áframhaldandi viðræðum um kaup PCC á kísilverksmiðjunni.“
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka:
„Saga kísilversins í Helguvík er vel þekkt. Við höfum litið á það sem skyldu okkar að reyna til þrautar að nýta þá innviði og þau verðmæti sem þarna hefur verið fjárfest í. Þar höfum við horft til allra hagaðila, ekki síst íbúa Reykjanesbæjar sem urðu fyrir óþægindum á þeim stutta tíma sem verksmiðjan var starfrækt.
Við unnum metnaðarfulla endurbótaáætlun á verksmiðjunni sem fór í gegnum umhverfismat og leituðum að rekstraraðila með nauðsynlega þekkingu og getu til að starfrækja verksmiðjuna á umhverfisvænan máta, í sátt við samfélagið. Bankinn telur fullreynt að þarna verði rekin kísilverksmiðja og því tekur við nýr kafli sem miðar að því að flytja verksmiðjuna eða færa henni nýtt hlutverk.“