Fjárfestingafélögin Sjávarsýn og Kjálkanes bættu bæði við eignarhlut sinn í Festi, móðurfélagi N1, Elko og Krónunnar, í síðasta mánuði. Þetta kemur fram á uppfærðum hluthafalista Festi.
Sjávarsýn, fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar, keypti eina milljón að nafnverði í Festi í júní og fer nú með 1,34% hlut í félaginu. Miðað við meðalgengi hlutabréfa Festi má ætla að Sjávarsýn hafi keypt í Festi fyrir ríflega 208 milljónir króna í síðasta mánuði. Markaðsvirði eignarhlutar Sjávarsýnar í Festi nemur 874 milljónum.
Þá keypti Kjálkanes, systurfélag útgerðarfélagsins Gjögurs á Grenivík, einnig eina milljón bréfa í Festi í síðasta mánuði. Kjálkanes fjárfesti í Festi á síðasta ári og fór með 1,6% í lok síðasta árs en á nú 1,92% hlut í félaginu. Eignarhlutur fjárfestingafélagsins í Festi er um 1,25 milljarðar að markaðsvirði.
Sjá einnig: Níu tilnefnd í stjórn Festi
Björgólfur Jóhannsson, einn hluthafa og stjórnarformaður Kjálkaness, bauð sig fram í stjórn Festi fyrir hluthafafund sem boðaður er þann 14. júlí næstkomandi. Hann var meðal þeirra níu frambjóðenda sem tilnefningarnefnd Festi tilnefndi fyrir stjórnarkjörið.