Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) hefur svarað fullyrðingum kennara og þeir hafi ekki notið bættra kjara í takt við samkomulag frá árinu 2016.
SÍS segir þetta eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum og bendir á að kjör kennara hafi batnað umfram það sem gerst hefur á almennum vinnumarkaði
Kjarabót kennara nemi um 84% á níu ára tímabili eða á árunum 2014-2023 en á sama tíma hafa launakjör sérfræðinga vaxið um 50%.
„Eðli starfa opinberra starfsmanna og starfa á almennum vinnumarkaði eru um margt ólík og einnig hvernig vinnumagn starfsfólks er mælt. Þá eru önnur kjör launafólks sömuleiðis ólík milli markaða. Verðgildi annarra kjara og réttinda sem kennarar njóta umfram sérfræðinga á almennum vinnumarkaði s.s. ríkari veikindaréttur, lengra orlof, launaður tími til símenntunar, launuð námsleyfi o.fl. má jafna til 10% til 15% launaauka, sem horfa verður til við samanburð launa og kjara á milli markaða,“ segir í greiningu SÍS sem ber yfirskriftina: Jöfnun launa og kjara: Hvað hefur verið gert?
SÍS segir að það sé ljóst að breytingar á launakjörum launafólks hafi verið umtalsverðar undanfarinn áratug.
Þá hafa kjarabætur á opinberum markaði verið meiri en á almennum markaði og eru kennarar þar engin undantekning.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá sagði Mjöll Matthíasdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, að miða eigi kjör kennara við meðallaun sérfræðinga á almennum vinnumarkaði.
Hún sagði að það væri verið að miða við um milljón í grunnlaun en kennarar eru nú með um 700 þúsund krónur í grunnlaun. Samsvarar það um rúmlega 42% hækkun á grunnlaunum kennara.
Í greiningu SÍS segir að árið 2023 gerði félagið áfangasamkomulag við BSRB, BHM og KÍ um skref í átt að jöfnun samhliða undirritun skammtímakjarasamninga.
Þá náðist fyrr á þessu ári annað áfangasamkomulag við BSRB og BHM sem er frekara skref í átt að jöfnun fyrir þær starfsstéttir þar sem skýrar vísbendingar eru um ómálefnalegan og kerfislægan launamun á milli markaða.
Kennarasambandið sagði sig frá viðræðunum í janúar síðastliðnum og er því ekki hluti af öðru áfangasamkomulaginu.
„Það er þó þannig að KÍ stendur til boða sambærilegt skref í átt að jöfnun launa líkt og samið var um við BSRB og BHM með öðru áfangasamkomulaginu fyrr á þessu ári.
Samninganefnd Sambandsins ítrekar samningsvilja sinn og vonast eftir uppbyggjandi og gagnlegum samtölum við stéttarfélögin um lausn kjaradeilunnar. Þar berum við öll ábyrgð,” segir á vef SÍS.