Sam­band ís­lenskra sveitarfélaga (SÍS) hefur svarað full­yrðingum kennara og þeir hafi ekki notið bættra kjara í takt við sam­komu­lag frá árinu 2016.

SÍS segir þetta eiga sér ekki stoð í raun­veru­leikanum og bendir á að kjör kennara hafi batnað um­fram það sem gerst hefur á al­mennum vinnu­markaði

Kjara­bót kennara nemi um 84% á níu ára tíma­bili eða á árunum 2014-2023 en á sama tíma hafa launa­kjör sér­fræðinga vaxið um 50%.

„Eðli starfa opin­berra starfs­manna og starfa á al­mennum vinnu­markaði eru um margt ólík og einnig hvernig vinnu­magn starfs­fólks er mælt. Þá eru önnur kjör launafólks sömu­leiðis ólík milli markaða. Verð­gildi annarra kjara og réttinda sem kennarar njóta um­fram sér­fræðinga á al­mennum vinnu­markaði s.s. ríkari veikindaréttur, lengra or­lof, launaður tími til sí­menntunar, launuð náms­leyfi o.fl. má jafna til 10% til 15% launa­auka, sem horfa verður til við saman­burð launa og kjara á milli markaða,“ segir í greiningu SÍS sem ber yfir­skriftina: Jöfnun launa og kjara: Hvað hefur verið gert?

SÍS segir að það sé ljóst að breytingar á launa­kjörum launafólks hafi verið um­tals­verðar undan­farinn ára­tug.

Þá hafa kjara­bætur á opin­berum markaði verið meiri en á al­mennum markaði og eru kennarar þar engin undan­tekning.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá sagði Mjöll Matt­hías­dóttir, for­maður Félags grunnskóla­kennara, að miða eigi kjör kennara við meðal­laun sér­fræðinga á al­mennum vinnu­markaði.

Hún sagði að það væri verið að miða við um milljón í grunn­laun en kennarar eru nú með um 700 þúsund krónur í grunn­laun. Sam­svarar það um rúm­lega 42% hækkun á grunn­launum kennara.

Í greiningu SÍS segir að árið 2023 gerði félagið áfanga­sam­komu­lag við BSRB, BHM og KÍ um skref í átt að jöfnun sam­hliða undir­ritun skammtíma­kjara­samninga.

Þá náðist fyrr á þessu ári annað áfanga­sam­komu­lag við BSRB og BHM sem er frekara skref í átt að jöfnun fyrir þær starfs­stéttir þar sem skýrar vís­bendingar eru um ómál­efna­legan og kerfislægan launa­mun á milli markaða.

Kennara­sam­bandið sagði sig frá viðræðunum í janúar síðastliðnum og er því ekki hluti af öðru áfanga­sam­komu­laginu.

„Það er þó þannig að KÍ stendur til boða sam­bæri­legt skref í átt að jöfnun launa líkt og samið var um við BSRB og BHM með öðru áfanga­sam­komu­laginu fyrr á þessu ári.

Samninga­nefnd Sam­bandsins ítrekar samnings­vilja sinn og vonast eftir upp­byggjandi og gagn­legum samtölum við stéttarfélögin um lausn kjara­deilunnar. Þar berum við öll ábyrgð,” segir á vef SÍS.