Samtök atvinnulífsins (SA) og VR, Landssamband íslenskra verslunarmanna (LÍV) og samflot iðnaðar- og tæknifólks hafa náð samkomulagi um kjarasamning. Vísir hefur þetta eftir Elísabetu S. Ólafsdóttur aðstoðarríkissáttasemjara.

Viðræðum er því lokið í Karphúsinu og samningurinn verður undirritaður klukkan eitt í dag þar sem greint verður frá innihaldi hans.

Þá hafa forsætis-, fjármála- og innviðaráðherra boðað til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum kl. 14.30 í dag. Á fundinum verður kynnt yfirlýsing stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

SA og Starfsgreinasambandið skrifuðu undir skammtímasamning í byrjun mánaðarins. Sá samningur var framlenging á Lífkjarasamningnum og gildir til 31. janúar 2024. Samningurinn við SGS felur í sér 33 þúsund króna almenna launahækkun og 35 þúsund króna hækkun á grunntaxta.

Samningar við Eflingu eru enn útistandandi. Efling vísaði kjaradeilu sinni við SA til ríkissáttasemjara á miðvikudaginn síðasta.