Áhugi Bandaríkjamanna á að starfa hjá UPS hefur stóraukist eftir að hraðsendingarþjónustan náði samkomulagi við verkalýðsfélag starfsmanna fyrirtækisins, Teamsters, í síðasta mánuði.
Samkvæmt starfsleitarsíðunni Indeed Inc. var meira en 50% aukning á notkun leitarorðanna „UPS“ og „United Parcel Service“ í þeirri viku eftir að tilkynnt var um samkomulagið. Sú þróun virðist hins vegar ekki hafa náð yfir alla starfsstéttina þar sem einföld leitarorð á borð við „sendibílstjóri“ náðu ekki sömu hæðum.
Undanfarnar tvær vikur hefur „UPS-sendibílastarf nálægt mér“ einnig verið ein vinsælasta leit á leitarsíðunni Google.
„Við höfum séð mikinn áhuga meðal fólks á lausum störfum innan UPS vegna þeirrar fjölmiðlaumfjöllun um bráðabirgðasamninginn við Teamsters,“ segir Jim Mayer, talsmaður UPS.
Bandaríska hraðsendingarþjónustan UPS samdi við Teamsters þann 25. júlí síðastliðinn til að koma í veg fyrir verkfall sem hafði verið yfirvofandi mánuðum saman. Samkvæmt samningnum voru byrjunarlaun hækkuð í 21 dali á klukkustund og bætt verður einnig úr vinnuaðstæðum.
Carol Tomé, framkvæmdastjóri UPS, segir að samningurinn myndi halda áfram að verðlauna starfsmenn fyrirtækisins með „leiðandi launum og fríðindum“, samhliða því að halda fyrirtækinu samkeppnishæfu.