Verðbólga í Bandaríkjunum hjaðnaði í aprílmánuði samhliða hægari verðbólguþrýstingi samkvæmt tölum frá vinnumálaráðuneyti Bandaríkjanna rétt í þessu.
Verðbólga á ársgrundvelli mældist 3,4% í apríl á meðan kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 3,6% og hefur hún ekki verið lægri síðan í apríl 2021.
Samkvæmt The Wall Street Journal er verðbólgumælingin í samræmi við væntingar hagfræðinga og markaðsaðila.
Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa til tíu ára lækkaði samhliða því að framvirkir samningar með hlutabréf hækkuðu.
Bandaríkin eiga þó enn töluvert í land með að ná 2% verðbólgumarkmiði Seðlabankans en tölur dagsins gefa þó von um að vextir verði lækkaðir á árinu.