Kjarninn miðlar ehf., sem heldur úti fjölmiðlinum Kjarnanum, tapaði 4,9 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 6,1 milljónar tap árið 2020. Þetta kemur fram í frétt á vef Kjarnans en ekki hefur verið opnað fyrir ársreikninginn á vef Skattsins.
Tekjur Kjarnans námu 107 milljónum króna á síðasta ári samanborið við rúmar 78 milljónir árið áður. Í fréttinni segir að tekjuvöxtinn megi einkum rekja til þess að valfrjálsar greiðslur til miðilsins hafi fjölgað og meðalfjárhæð þeirra hækkað. Auk þess hafi áskriftartekjur að Vísbendingu og auglýsingatekjur aukist. Þá fékk Kjarninn 14,4 milljóna fjölmiðlastyrk úr ríkissjóði.
Rekstrargjöld námu 111 milljónum og jukust um 32% frá fyrra ári. Laun og launatengd gjöld voru 85% af öllum rekstrargjöldum síðasta árs. Ársverkum fjölgaði úr 6,2 í 9,3 á milli ára.
Eigið fé Kjarnans var 25,8 milljónir um síðustu áramót og langtímaskuldir ríflega 5 milljónir. Hjálmar Gíslason, forstjóri Grid, er stærsti hluthafi Kjarnans með 18,4% hlut. Vilhjálmur Þorsteinsson, forstjóri Miðeindar, er næst stærstur með 18,0% hlut.