Kjartan Ásmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri öryggisfyrirtækisins Nortek. Kjartan er með meistarapróf frá viðskiptadeild Háskóla Íslands og hefur víðtæka leiðtogareynslu úr bæði tryggingageiranum og íþróttahreyfingunni. Hann er í dag formaður Íslensks Toppkörfubolta auk þess að hafa kennt stjórnun við Háskólann í Reykjavík um árabil.

Metnaðarfull framtíðarsýn

„Ég er mjög ánægður með að hafa fengið Kjartan sem framkvæmdastjóra í okkar öfluga teymi, til að leiða áframhaldandi vöxt Nortek. Starfsreynsla hans og persónulegir eiginleikar falla einstaklega vel að þeirri vegferð sem framundan er hjá fyrirtækinu. Við hlökkum til að vinna með honum ásamt framúrskarandi starfsfólki félagsins í að móta saman framtíð Nortek.” er haft eftir Björgvini Tómassyni, eiganda Nortek.

„Nortek er öflugt og rótgróið öryggisfyrirtæki sem hefur þróast mikið frá stofnun norður á Akureyri fyrir rúmum 26 árum síðan. Framtíðarsýn fyrirtækisins er metnaðarfull þar sem að sterk vörumerki og mikil sérfræðikunnátta skipta félagið sköpum. Ég hlakka til að leiða fyrirtækið áfram til framtíðar með þeim framúrskarandi mannauði sem hjá því starfar,“ segir Kjartan.