Bandaríska skyndibitakeðjan Chick-Fil-A tilkynnti fyrir helgi að hún hyggst opna fimm veitingastaði á Bretlandseyjum og áætlar að fyrsti staðurinn muni opna snemma árs 2025.

Chick-Fil-A opnaði fyrst í Bretlandi árið 2019 í bresku borginni Reading en mætti harðri andstöðu frá fólki sem sniðgekk staðinn fyrir afstöðu fyrirtækisins gagnvart hjónaböndum samkynhneigðra. Fjölskyldan sem rekur staðinn er mjög trúuð og er fræg fyrir að nota veitingastaðinn til að opinbera kristnu gildin sín.

Til að mynda er veitingastaðurinn lokaður á sunnudögum og má búast við því að það sama muni gilda um útibú staðarins í Bretlandi ef áform fyrirtækisins ganga eftir.

Fyrsti kjúklingaborgarinn?

Saga Chick-Fil-A byrjar í bænum Hapeville í Georgíu-ríki árið 1946 þegar maður að nafni Samuel Truett Cathy opnaði fyrsta grillstaðinn.

Árið 1961, eftir 15 ára rekstur, uppgötvar Samuel svo hraðsteikingarpott sem gat eldað kjúkling með sama hraða og það tók að elda venjulegan hamborgara. Í kjölfarið ákveður hann að skrá vörumerkið „Chick-Fil-A“ og var lína fyrirtækisins: „Við fundum ekki upp kjúklinginn, bara kjúklingasamlokuna“.

Kjúklingasamlokan, eða kjúklingaborgarinn, hefur ávallt verið flaggskip fyrirtækisins og heldur staðurinn því fram að hann hafi verið sá fyrsti til að útbúa steikta kjúklingaborgara á augabragði. Þó svo að það megi vel vera þá er að vísu búið að sanna að Chick-Fil-A hafi ekki fundið upp á borgaranum sjálfum.

Fyrsti Chick-Fil-A staðurinn opnaði Hapeville í Georgíu-ríki árið 1946.
© Wikimedia Commons (Wikipedia)

Frá 1964 til 1967 var kjúklingaborgarinn seldur á meira en fimmtíu stöðum um allt land, þar á meðal á veitingastaðnum Waffle House og á Houston Astrodome leikvanganum.

Á áttunda og níunda áratugnum stækkaði keðjan með því að opna skyndibitastaði sína í úthverfum verslunarmiðstöðva. Fyrirtækið rekur í dag meira en 2.800 veitingastaði en flest útibú eru staðsett í Suðurríkjum Bandaríkjanna.

Samfélagsleg ádeila

Stofnandi Chick-Fil-A var mjög trúaður og hafði trú hans mikil áhrif á rekstur fyrirtækisins. Formlegur tilgangur fyrirtækisins var, samkvæmt Samuel, „að þjóna Guði með því að vera trúr gagnvart öllu því sem okkur er treyst fyrir og að hafa jákvæð áhrif á alla sem kynnast Chick-Fil-A.“

Samuel var meðal annars mótfallinn því að fyrirtækið yrði skráð á markað út af trúarlegum ástæðum.

Sumarið 2012 talaði Dan Cathy, þáverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins, opinberlega gegn hjónavígslu samkynhneigðra og sagði að þeir sem dirfðust skilgreina hjónabönd á eigin spýtum væru að bjóða dóm Guðs yfir bandarísku þjóðinni.

Chick-Fil-A hafði einnig gefið fleiri milljónir Bandaríkjadali til aðgerðarhópa sem börðust gegn hjónaböndum samkynhneigðra. Í kjölfarið byrjuðu margir í Bandaríkjunum að sniðganga staðinn.

Sem svar við þeirri herferð ákvað þáverandi ríkisstjóri Arkansas, Mike Huckabee, að koma á fót svokölluðum „Chick-Fil-A Appreciation Day“ til að hvetja þá sem voru sammála stefnu fyrirtækisins að eiga meiri viðskipti við það.

Árið 2019 gaf fyrirtækið svo frá sér tilkynningu sem sagði að það hefði hætt að styrkja hópa sem berjast gegn hjónaböndum samkynhneigðra og segist nú einblína á menntun og að berjast gegn hungri.