Bandaríski fjárfestingarisinn KKR stendur frammi fyrir gríðarlegum vandræðum í tengslum við kaupin á ítalska fjarskiptafyrirtækinu FiberCop í fyrra en um er að ræða stærstu fyrirtækjakaup einkaaðila í Evrópu.
Samkvæmt Financial Times er uppi ágreiningur á milli KKR og stjórnenda FiberCop um tekjuáætlanir fyrirtækisins, sem gæti leitt til 449 milljóna evra tekjutaps.
KKR keypti FiberCop, sem sér um fastlínunet Telecom Italia, á 22 milljarða evra í fyrra. Nú hafa nýjar tekjuáætlanir fyrirtækisins leitt í ljós að tekjur árið 2025 verða 449 milljónum evra lægri en KKR hafði áætlað.
Yfir fimm ára tímabil gæti þetta tekjutap numið allt að tveimur milljörðum evra.
Þetta hefur leitt til ósættis á meðal fjárfesta, en auk KKR eiga fjárfestingarsjóðurinn frá Abu Dhabi (Adia), kanadíski lífeyrissjóðurinn CPP Investments og ítalska ríkið hlut í FiberCop.
Adia hafa dregið tekjuáætlanir félagsins í efa og vilja að málið sé grandskoðað á meðan aðrir fjárfestar segja að umræðurnar sem eru að eiga sér stað séu eðlilegur hluti af áætlanagerð.
Í kjölfar tekjuspánnar var Luigi Ferraris, forstjóri FiberCop, rekinn úr starfi.
Massimo Sarmi, stjórnarformaður fyrirtækisins, hefur tekið við forstjórastöðunni en KKR hefur einnig hert stjórn sína á fyrirtækinu og þurfa allar helstu ákvarðanir félagsins að vera samþykktar skriflega af tveimur stjórnendum sem KKR hefur valið.
Tekjutapið stafar af ýmsum þáttum, þar á meðal hægari upptöku ljósleiðara en áætlað var, lægri tekjum af fjarskiptaþjónustu, hærri kostnaði við vinnu og upplýsingatækni og afturköllun á samningi við Telecom Italia.
Samkvæmt FT er nú er unnið að því að endurskoða áætlanir FiberCop og aðlaga þær að nýjum veruleika. Óvíst er hvernig þessi staða mun hafa áhrif á framtíð fyrirtækisins og fjárfesta þess.