Bandaríski fjár­festinga­risinn KKR stendur frammi fyrir gríðar­legum vand­ræðum í tengslum við kaupin á ítalska fjar­skipta­fyrir­tækinu FiberCop í fyrra en um er að ræða stærstu fyrir­tækja­kaup einka­aðila í Evrópu.

Sam­kvæmt Financial Times er uppi ágreiningur á milli KKR og stjórn­enda FiberCop um tekjuáætlanir fyrir­tækisins, sem gæti leitt til 449 milljóna evra tekju­taps.

KKR keypti FiberCop, sem sér um fastlínunet Telecom Italia, á 22 milljarða evra í fyrra. Nú hafa nýjar tekjuáætlanir fyrirtækisins leitt í ljós að tekjur árið 2025 verða 449 milljónum evra lægri en KKR hafði áætlað.

Yfir fimm ára tíma­bil gæti þetta tekju­tap numið allt að tveimur milljörðum evra.

Þetta hefur leitt til ósættis á meðal fjár­festa, en auk KKR eiga fjár­festingar­sjóðurinn frá Abu Dhabi (Adia), kana­díski líf­eyris­sjóðurinn CPP Invest­ments og ítalska ríkið hlut í FiberCop.

Adia hafa dregið tekjuáætlanir félagsins í efa og vilja að málið sé grandskoðað á meðan aðrir fjár­festar segja að um­ræðurnar sem eru að eiga sér stað séu eðli­legur hluti af áætlana­gerð.

Í kjölfar tekju­spánnar var Luigi Ferraris, for­stjóri FiberCop, rekinn úr starfi.

Massimo Sarmi, stjórnar­for­maður fyrir­tækisins, hefur tekið við for­stjórastöðunni en KKR hefur einnig hert stjórn sína á fyrir­tækinu og þurfa allar helstu ákvarðanir félagsins að vera samþykktar skrif­lega af tveimur stjórn­endum sem KKR hefur valið.

Tekju­tapið stafar af ýmsum þáttum, þar á meðal hægari upp­töku ljós­leiðara en áætlað var, lægri tekjum af fjar­skiptaþjónustu, hærri kostnaði við vinnu og upp­lýsingatækni og aftur­köllun á samningi við Telecom Itali­a.

Sam­kvæmt FT er nú er unnið að því að endur­skoða áætlanir FiberCop og aðlaga þær að nýjum veru­leika. Óvíst er hvernig þessi staða mun hafa áhrif á framtíð fyrir­tækisins og fjár­festa þess.