Íslenska leikjafyrirtækið Klang Games hefur tryggt sér 41 milljóna dala fjármögnun eða sem nemur 5,5 milljörðum króna. Heildarfjármögnun Klang frá stofnun árið 2013 er nú komin í 10,8 milljarða króna.

Klang segir í tilkynningu að fjármögnunin verði nýtt til að hraða þróun á fjölspilunarleiknum Seed, sem félagið hefur unnið að frá árinu 2016. Fyrirtækið, sem er með höfuðstöðvar í Berlín, gerir ráð fyrir að tvöfalda starfamannahópinn sinn á næstu tólf mánuðum, eða úr 70 í 150 manns.

Fjármögnunarlotan var leitt af vísifjárfestinum Animoca Brands og breska fjárfestingarfélaginu Kingsway Capital. Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfsson, tók einnig þátt í fjármögnuninni en félagið var þegar hluthafi í Klang. Meðal annarra fjárfesta sem tóku þátt í nýafstöðnu fjármögnunarlotunni voru Anthos, Supercell, Roosh, AngelHub og New Life Ventures. Þá hafði Davíð Helgason, stofnandi Unity, og fjárfestingafélag Lego áður fjárfest í Klang.

Sjá einnig: Stórhuga veraldarsmíði hjá Klang

Líkt og kom fram í umfjöllun Viðskiptablaðsins um Klang fyrir rúmu ári þá þykir Seed óvenjulegur fyrir þær sakir að framvinda leiksins og persóna í honum heldur áfram allan sólarhringinn óháð því hvort notendur eru að spila leikinn eða ekki. Í Seed taka spilarar þátt í að skapa nýtt samfélag á fjarlægri plánetu, og hefur leiknum bæði verið líkt við tölvuleikina Sims og EVE Online, þekktasta afkvæmi CCP. Notendur munu sjálfir móta þau þjóðfélög sem skapast innan leiksins og koma sér saman um leikreglurnar.

Stofnendur Klang eru Ívar Emilsson, Oddur Snær Magnússon og Guðmundur Hallgrímsson, sem jafnan er kallaður Mundi Vondi, en sá síðastnefndi er framkvæmdastjóri félagsins. Ívar og Oddur störfuðu áður hjá CCP.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að Isabelle Henriques hafi komið inn í stjórnendateymi Klang í febrúar síðastliðnum en hún gegnir stöðu meðforstjóra og rekstrarstjóra. Hún vann áður sem forstöðumaður hjá Electorinc Arts við þróun við þróun á leikjum á borð við The SIms, Call of Duty og Madden.