Tekjur hugbúnaðarfyrirtækisins Klappa grænna lausna námu 448 milljónum króna árið 2022, sem er 17,7% aukning frá fyrra ári. EBITDA-hagnaður af reglulegri starfsemi Klappa, sem er skráð á First North-markaðinn, nam 59 milljónum í fyrra en afkoma eftir skatta var neikvæð um 14 milljónir.

Í afkomutilkynningu Klappa kemur fram að lögaðilar sem nýta sér lausnir Klappa séu orðnir um 1.500 talsins.

Félagið segir að stóra verkefnið á næstu árum sé að sækja inn á nýja markaði. Fyrsta skrefið verði að ná fótfestu á Norðurlöndum en sú vegferð hófst með nýju dótturfélagi í Danmörku. Klappir segja að þekkt dönsk og sænsk félög séu meðal fyrstu viðskiptavina sinna á þessum markaði.

„Tækifæri Klappa til að vaxa erlendis eru mikil þar sem hugbúnaðurinn og aðferðafræðin er gerð fyrir alþjóðlegan markað […] Undirbúningur fyrirtækisins inn á ný markaðssvæði þarf að vera markviss og rétt tímasettur hvað varðar lög og reglur.“

Í lok síðasta árs settu Klappir af stað rannsóknarverkefni til að kanna markaðsaðstæður fyrir uppbyggingu á stafræna samfélaginu og lausnum fyrirtækisins fyrir Bandaríkjamarkað. Félagið reiknar með að þessari vinnu ljúki um mitt ár 2023.

Sókn á erlenda markaði í takti við auknar kröfur

Klappir, sem byrjuðu fyrir rúmum áratug að þróa starfræna tækni til að halda utan um umhverfismál, segjast stefna á að taka skrefin inn á erlenda markaði í takti við auknar kröfur opinbera aðila og aukinnar eftirspurnar á markaði.

Í tilkynningunni er minnst á nýja tilskipun ESB um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja (CSRD) tilheyrandi staðali (ESRS) sem muni ná beint til 50.000 fyrirtækja í Evrópu og snerta strax meira en 5 milljónir fyrirtækja beint eða óbeint. Áætlað er að tilskipunin taki gildi á Íslandi árið 2024.

Klappir munu vinna áfram á komandi mánuðum að því að aðlaga eigin tækni og aðferðafræði að staðlinum.

„Vaxandi þörf er fyrir stafrænar sjálfbærnilausnir sem hafa sannað gildi sitt á markaði og hafa náð eftirtektarverðum árangri. Með ESRS mun krafan um nákvæmni upplýsinga, rekjanleika og gagnsæi verða rauði þráðurinn í upplýsingagjöf. Því þurfa aðilar sem áður hafa unnið sjálfbærniupplýsingar í töflureiknum (t.d. excel) að skipta þeim út fyrir sérhæfðar og staðlaðar sjálfbærnilausnir sem uppfylla lagaleg staðla á hverjum tíma og tryggja hámarks öryggi gagna,“ segir Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa grænna lausna.