Skiptastjóri krefst þess að kaupsamningi Kleópötru við þrotabú Gunnars Majóness verði rift og henni gert að greiða búinu 13,7 milljónir króna. Ríkisútvarpið segir frá þessu.
Eftir að Gunnars Majónes var úrskurðað gjaldþrota í júní 2014, eða fyrir rétt tæplega tveimur árum, var gerður samningur milli þrotabúsins og fyrirtækis í eigu Kleópötru Kristbjargar Stefánsdóttur um kaup á eigum þrotabúsins. Lýstar kröfur í þrotabúið námu þá 183 milljónum króna.
Félagið, sem heitir Gunnars ehf., hvers Kleópatra var eini eigandi og stjórnarformaður keypti þá af þrotabúinu allar uppskriftir, skrifstofubúnað, heimasíðu og markaðsefni, meðal annarra eigna. Greiddi félag Kleópötru einhverjar 62,5 milljónir króna fyrir þetta allt. Félagið greiddi fyrir þessar eignir með skuldabréfi til tíu ára.
Skiptastjóri þrotabús Gunnars Majóness ehf., upprunalega félagsins, hefur nú farið fram á kröfu þess efnis að kaupsamningi við Gunnars ehf. verði rift og að félaginu verði gert að skila öllum fyrrgreindum eignum í skiptum fyrir skuldabréfið. Skiptastjórinn krefst þess þá einnig að Kleópötru og Gunnars ehf. verði gert að greiða þrotabúinu 13,7 milljónir.