Um tvö og hálft ár er síðan Ásta S. Fjeldsted var ráðin forstjóri Festi en undir hatti samstæðunnar eru dótturfélögin N1, Krónan, Elko, Lyfja, Bakkinn vöruhótel og Yrkir, sem er fasteignafélag samstæðunnar. Ásta þekkti þó vel til innan Festi enda var hún áður framkvæmdastjóri Krónunnar. Er gengið var frá ráðningu hennar sem forstjóra Festi stóð hún ekki síður á tímamótum í persónulega lífinu því þá var hún komin sjö mánuði á leið með sitt þriðja barn.

„Ég og maðurinn minn Bolli eignuðumst dreng í lok nóvember 2022 og mætti ég galvösk á skrifstofuna þann 17. mars 2023. Ég man dagsetninguna vegna þess að þennan sama dag tilkynnti Festi um kaupin á Lyfju.“

Um leið hafi hún þó að einhverju leyti komið upp um sig. „Út á við mátti kannski halda að ég væri mikil fyrirmynd með því að taka, sem nýr forstjóri í upphafi starfsins nokkurra mánaða fæðingarorlof, en með tilkynningunni á kaupunum á Lyfju varð mörgum ljóst að ég hafði verið að töluverðu leyti á kafi í vinnu í fæðingarorlofinu, sem kom til vegna aðstæðna, en er vissulega ekki til fyrirmyndar. Það fór eins og gefur að skilja mikið púður hjá mér og frábæru samstarfsfólki í kaupferlið á Lyfju sem og í undirbúning hjá mér við að taka við þessu umfangsmikla starfi,“ segir Ásta og bætir við að auðvitað sé illmögulegt að kúpla sig alveg út sem nýráðinn forstjóri.

„Ég vissi líka að hverju ég gekk þegar ég sóttist eftir starfinu. Bæði ábyrgðarlega séð, en einnig þar sem ég iðaði í skinninu að hefja þar störf. Það sem auðveldaði mér þetta var að Magnús Kr. Ingason, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar – og nú staðgengill forstjóra Festi, steig inn sem forstjóri tímabundið í fæðingarorlofinu og er áfram lykilmaður í stjórnendateymi Festi.“

„Project Kilimanjaro“

Á fyrsta ársfjórðungi 2023, á fyrsta starfsári Ástu, var rekstur samstæðunnar í nokkurri brekku og það var einmitt í fyrsta sinn sem Ásta kynnti árshlutaupppgjör á uppgjörsfundi hjá Festi. Tap fjórðungsins nam 91 milljón króna og var afkoman hálfum milljarði verri en á fyrsta ársfjórðungi árið 2022. Það var því ljóst að aðgerða var þörf til að rétta skútuna af. Til að koma félaginu á réttan kjöl fór Ásta með framkvæmdastjórnarteymi sínu af stað með verkefni sem fékk, „eins klisjukennt og það kann að hljóma“, segir Ásta og vitnar í störf sín sem ráðgjafi hjá McKinsey á árum áður, heitið „Project Kilimanjaro“. Verkefnið snerist um að „klífa kostnaðarfjallið“ og koma enn betri böndum á útgjöld félagsins.

„Þetta fól í sér aðhald og niðurskurð á öllum kostnaðarliðum samstæðunnar þar sem öll félög settu sér krónutölumarkmið í niðurskurði eða sparnaði. Heildartalan fyrir öll félögin var hæð fjallsins svo allir þurftu að skila sínu til að komast alla leið á toppinn. Staðan var tekin reglulega í „fjallsbúðum“ á leiðinni upp og á tiltölulega stuttum tíma náðum við fram miklum viðsnúningi, þ.e. það sem eftir var af árinu 2023. Þessi þróun hélt svo áfram á árinu 2024 og árangurinn varð eftir því.“

Festi hagnaðist um rúmlega fjóra milljarða árið 2024 sem var aukning um 16,9% frá árinu áður. EBITDA ársins nam 12,5 milljörðum en hefði numið 13,9 milljörðum ef rekstur Lyfju hefði verið inni allt árið og ef ekki hefði verið fyrir 750 milljóna króna stjórnvaldssekt. Félagið reiknar með að EBITDA yfirstandandi árs muni nema 14,4-14,8 milljörðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.