Það virðist sem tveir stærstu lífeyrissjóðir landsins, Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), hafi verið meðal þeirra fimm hluthafa hjá Festi sem fóru fram á margfeldiskosningu við stjórnarkjör á hluthafafundi félagsins sem fer fram á fimmtudaginn. LSR er stærsti hluthafi Festi með 13% hlut og LIVE er þriðji stærsti hluthafinn með nærri 10% hlut.
LSR vildi ekki gefa upp við Viðskiptablaðið hvort sjóðurinn hefði gert kröfu um margfeldiskosningu. Þá hefur LIVE ekki svarað fyrirspurn sem blaðið sendi í gær.
Lífeyrissjóðir eiga samtals yfir 70% hlut í Festi sem tilkynnti í gær að margfeldiskosning verði viðhöfð á hlutahafafundinum eftir að fimm hluthafar, sem hafa að baki sér 27,66% hlutafjár, fóru fram á að svo verði. Til að knýja fram slíka kosningu þurfa hluthafar sem ráða yfir minnst 10% hlutafjárins að gera kröfu um slíkt.
Viðskiptablaðið leitaði til allra lífeyrissjóða sem fara með yfir 3% hlut í félaginu hvort þeir hefðu gert kröfu um margfeldiskosningu. Allir sjóðirnir, að frátöldum LSR, LIVE og Stapa, sögðust ekki hafa farið fram á margfeldiskosningu. Ekki barst svar frá Stapa lífeyrissjóði, sem fer með 4,5% hlut í Festi, áður en fréttin fór í loftið. Óstaðfestar heimildir blaðsins herma þó að Stapi hafi ekki gert kröfu um margfeldiskosningu.
eign í % | ||||||||
13,1 | ||||||||
9,9 | ||||||||
9,8 | ||||||||
7,8 | ||||||||
6,8 | ||||||||
4,6 | ||||||||
4,5 | ||||||||
3,7 | ||||||||
3,4 | ||||||||
3,4 | ||||||||
3,0 | ||||||||
2,4 | ||||||||
2,0 | ||||||||
1,9 | ||||||||
1,8 | ||||||||
1,6 | ||||||||
1,3 | ||||||||
1,2 | ||||||||
1,0 |
Tryggja sína menn inn?
Með margfeldiskosningu gefst hluthöfum kostur á að skipta atkvæðamagni sínu í hverjum þeim hlutföllum sem þeir kjósa sjálfir á jafnmarga menn og kjósa skal eða færri. Þannig geta hluthafar sem dæmi lagt öll atkvæði sín á einn frambjóðanda fremur en að þurfa að deila þeim jafnt á fimm frambjóðendur.
Meðal kosta margfeldiskosninga eru að auka vernd minni hluthafa en þessi aðferðafræði gefur þeim talsvert meiri möguleika á að ná fulltrúa sínum í stjórn. Þá má minnast á að í kringum aðalfund Haga árið 2019 sagðist Jón Ásgeir Jóhannesson vera hlynntur margfeldiskosningum í kjölfar þess að skráð félög settu á fót tilnefningarnefndir hér á landi.
„Stofnanafjárfestar eru gjarnir á að kjósa í samræmi við tillögur nefndanna, og reynslan sýnir að þær byggja mat sitt að stærstu leyti á samráði við allra stærstu hluthafana. Ég tel því algerlega nauðsynlegt að vernda minni hluthafa, og margfeldiskosning er lýðræðislegasta kosningakerfið sem hlutafélagalögin bjóða upp á,“ hafði Markaðurinn eftir Jóni Ásgeiri á sínum tíma.
Þeir sem gagnrýna margfeldiskosningu benda hins vegar á að það sé óheppilegt að hluthafar velji bara einstaka frambjóðendur frekar en að velja jafnmarga og á að kjósa í stjórn. Einnig hefur verið bent á að margfeldiskosningu hafi verið ætlað að tryggja rétt minni hluthafa en í reynd nýtist fyrirkomulagið fyrir stærri hluthafa til að tryggja einstaka stjórnarmenn. Þannig er talið að báðir stærstu lífeyrissjóðir landsins hafi krafist margfeldiskosningar til að tryggja ákveðna frambjóðendur í stjórn.
Þrettán frambjóðendur
Sitjandi stjórnarmenn Festi voru sjálfkjörnir á aðalfundi félagsins í mars en sautján einstaklingar drógu framboð sitt til baka eftir að skýrsla tilnefningarnefndar var birt í aðdraganda aðalfundarins.
Hluthafar hjá Festi munu hins vegar velja á milli þrettán frambjóðenda á hlutahafafundinum á fimmtudaginn, sem stjórn félagsins boðaði eftir gagnrýni um hvernig staðið var að uppsögn Eggerts Þórs Kristóferssonar forstjóra.
Tilnefningarnefndin tilnefndi níu einstaklinga, þar á meðal alla sitjandi stjórnarmenn. Um helgina tilkynnti Festi að fimm aðrir hefðu gefið kost á sér en Viðar Örn Traustason dró framboð sitt til baka í dag.
Framboðslistinn í heild:
- Guðjón Reynisson, sitjandi stjórnarformaður
- Margrét Guðmundsdóttir, sitjandi varaformaður stjórnar
- Ástvaldur Jóhannsson, sitjandi stjórnarmaður
- Sigrún Hjartardóttir, sitjandi stjórnarmaður
- Þórey G. Guðmundsdóttir, sitjandi stjórnarmaður
- Björgólfur Jóhannsson, tilnefndur
- Sigurlína Ingvarsdóttir, tilnefnd
- Magnús Júlíusson, tilnefndur
- Þórdís Jóna Sigurðardóttir, tilnefnd
- Helga Jóhanna Oddsdóttir
- Herdís Pála Pálsdóttir
- Hjörleifur Pálsson
- Óskar Jósefsson