Útlit er fyrir að kolanotkun á heimsvísu í ár verði meiri en á metárinu 2013 eftir aukna eftirspurn í Indlandi og Evrópu. Alþjóðlega orkumálastofnunin (IEA) áætlar að kolanotkun muni aukast um 1,2% á milli áranna 2021 og 2022 og fara í fyrsta sinn yfir 8 milljarða tunna á einu ári.

Þróunin er þvert á loforð sem gefin voru á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í fyrra þar sem 194 þjóðir hétu því að draga úr kolanotkun til að minnka kolefnislosun.

Forstöðumaður orkumarkaða og -öryggis hjá IEA segir við Financial Times að hann geri ráð fyrir að kolanotkun verði áfram mikil á næstu tvö árin vegna vaxandi eftirspurnar nýmarkaðshagkerfa á borð við Indland, Kína og Suðaustur Asíu.

Þrír stærstu kolaframleiðendur í heimi - Kína, Indland og Indónesía - munu allir slá ný framleiðslumet í ár samkvæmt IEA.

Þá stefnir í að kolanotkun í Evrópu aukist annað árið í röð. Minna framboð af rússnesku gasi eftir innrásinu í Úkraínu hefur leitt til þess að fleiri Evrópuþjóðir reiða sig á kol við húshitun og rafmagnsframleiðslu.