Þýskaland verður orðið kolefnishlutlaust árið 2045 með aukinni hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa. Þetta tilkynnti Olaf Scholz kanslari Þýskalands í dag, að því er kemur fram í grein hjá Bloomberg.
Þýskaland hefur að undanförnu þurft að reiða sig á kolanámur og orkuver til að vega upp á móti áhrifum orkuskorts af völdum innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu. Scholz segir að orkuverin verði einungis notuð í mjög skamman tíma.
„Við viljum gera allt sem við getum til að berjast gegn loftslagskreppunni. Við erum rétt að byrja,“ sagði Scholz.
Sjá einnig: Rússar skrúfa fyrir gasflutninga til Þýskalands
Rússneska olíufyrirtækið Gazprom lokaði fyrir gasflutninga til Þýskalands í gegnum Nord Stream 1 gasleiðsluna fyrr í vikunni og bar fyrir sig árlega viðhaldsvinnu. Stjórnvöld í Þýskalandi óttast að gasflutningar hefjist ekki að nýju þann 21. júlí líkt og Gazprom ráðgerir.
Þýskaland hefur á undanförnum árum verið afar háð orkugjöfum frá Rússlandi. Nú þegar búið er að kveikja aftur á kolanámunum telja sérfræðingar að kolefnislosun í orkugeiranum í Þýskalandi muni aukast um 20% á næsta ári og 17% árið 2024.