Guillermo Francisco Reyes Conzález, sendiherra Kólumbíu til Svíþjóðar og Íslands, var staddur í Reykjavík um síðustu helgi og tók meðal annars þátt í gleðigöngu hinsegin daga.
Sendinefndin var stödd á Íslandi í reglulegri heimsókn til að aðstoða kólumbíska ríkisborgara, sem búsettir eru á Íslandi, við að endurnýja vegabréf sín og að sinna öðrum ríkistengdum verkefnum.
Hann var mættur í Hljómskálagarðinn í landsliðstreyju Kólumbíu ásamt Mariu Jimenez Pacifico, eiganda Mijitu, þegar Viðskiptablaðið náði tali af honum. Þetta er í þriðja sinn sem Guillermo heimsækir Ísland en hann segir að samskipti Íslands og Kólumbíu hafi verið til fyrirmyndar alveg frá fyrsta degi.
„Ísland og Kólumbía eiga margt sameiginlegt, ekki bara nærvera okkar við sjóinn, heldur líka allur þessi líffræðilegi fjölbreytileiki. Við viljum líka auka útflutning á kólumbískum vörum til Íslands og deila tæknikunnáttu þegar kemur að sviðum eins og jarðvarma.“
Ríkisstjórn Kólumbíu hefur undanfarin ár verið að skoða möguleika á nýtingu jarðvarmaorku í landinu og veitti meðal annars fyrsta leyfi til þróunar á slíku verkefni í landinu í janúar á þessu ári.
Hann segir að orkuskipti séu sérstaklega mikilvæg fyrir Kólumbíu þessa stundina og vitnar til að mynda í COP 16-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika sem verður haldin í borginni Cali í Kólumbíu í lok október á þessu ári.

Sendiherrann bætir við að ríkisstjórn Kólumbíu, undir forystu Gustavo Petro, hafi ekki aðeins unnið hörðum höndum að orkuskiptum heldur hafi hún einnig unnið að því að gjörbreyta bæði öryggi og ímynd landsins. Forsetinn hafi til að mynda unnið náið með skæruliðasamtökum eins og ELN í Kólumbíu til að tryggja áframhaldandi frið í landinu.
„Kólumbía verður að vera þekkt fyrir eitthvað annað en ofbeldi, stríð og eiturlyf. Við viljum að Kólumbía sé þekkt sem fallegt land með elskulegu fólki og frábærum mat.“