Íslenska fyrirtækið Tern Systems, dótturfélag Isavia ANS, og HungaroControl hafa undirritað viðtökuvottorð fyrir prófunum á flugumferðarstjórnunarkerfinu Polaris.

Viðtökuvottorðið er stór áfangi í afhendingu kerfisins til HungaroControl sem sér um stjórnun flugumferðar yfir Ungverjalandi og Kósovó en flugstjórnarsvæðið hefur þurft að taka við aukinni flugumferð síðustu ár, ekki síst í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Innleiðing Polaris sem varakerfis er liður í að auka öryggi og skilvirkni í flugumferðarstjórnun á svæðinu. Stefnt er að því að Polaris kerfið verði tekið í notkun á fyrri hluta árs 2026 fyrir flugstjórnarsvæðin yfir Ungverjalandi og Kosovo.

„Við hjá Tern Systems erum afar ánægð með þennan mikilvæga áfanga í afhendingu á Polaris kerfinu til HungaroControl. Það tekur langan tíma að innleiða kerfi fyrir stjórnun flugumferðar en Tern Systems og HungaroControl hafa í samvinnu þróað og aðlagað Polaris kerfið að þörfum Ungverjalands í tæp 4 ár,” segir Magnús Þórðarson framkvæmdastjóri Tern Systems.

HungaroControl er einn af tveimur helstu samstarfsaðilum Tern Systems í þróun Polaris kerfisins. Áður en HungaroControl kom að verkefninu höfðu Tern Systems og Isavia ANS haft samstarf um að þróa Polaris kerfið fyrir stjórnun flugumferðar yfir Íslandi.