Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er rætt við Ingva Jónasson, framkvæmdastjóra fasteignaþróunarfélagsins Klasa, um nýlega frágengin kaup kauphallarfélaganna Haga og Regins á hlut í Klasa. Eftir viðskiptin eiga félögin hvert um sig þriðjungs hlut í Klasa.

Ingvi segir helstu verkefni Klasa í dag snúast um rekstur og stýringu félagsins Smárabyggðar, sem stendur að uppbyggingu í hverfinu 201 Smári sunnan Smáralindar.  „Nú hafa líklega yfir 600 íbúar flutt inn í hverfið en um þessar mundir eru þar í byggingu um 200 íbúðir og er sala hafin á hluta þeirra. Klasi hefur unnið að þessu verkefni frá árinu 2014 en skipulag hverfisins gerir ráð fyrir um 700 íbúðum ásamt þjónustu.“

Næsta stóra verkefni Klasa sé svo uppbygging á Borgarhöfða. Um sé að ræða þróunarverkefni á Ártúnshöfða sem félagið hafi unnið að þróun og skipulagi á undanfarin 17 ár. „Fyrr á þessu ári var staðfest skipulag á því svæði sem Klasi hefur til þróunar og er gert ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist á næsta ári. Verkefnið, sem er mjög umfangsmikið, snýr að uppbyggingu á nýjum borgarkjarna með íbúðum, skrifstofum, verslunum og ýmissi þjónustu.  Þegar Klasi fjárfesti í lóðum á svæðinu þá var verkefnið ekki orðið að því forgangsverkefni í þróun höfuðborgarinnar sem það er nú, en alls hafa um 3.500 íbúðareiningar auk þjónustu og skrifstofuhúsnæðis verið samþykktar í skipulagi fyrr á árinu eða eru í samþykktarferli,“ segir Ingvi og bætir við að  meðal annars sé gert ráð fyrir að fram fari hönnunarsamkeppni á vegum Klasa um hluta verkefnisins á næstu mánuðum.

Ingvi segir nýju hluthafana, Haga og Regin, einnig koma með ný verkefni á borð Klasa. Þar sé bæði um að ræða skipulagsverkefni sem og verkefni þar sem lóðir séu tilbúnar til framkvæmda.  „Meðal helstu skipulagsverkefna er þróunarverkefni í norðurhluta Mjóddar, á svokölluðum Garðheimareit, þar sem gert er ráð fyrir því að hefja deiliskipulagsvinnu á næstu vikum. Vinna við deiliskipulag á þjónustustöð Olís við Álfheima mun jafnframt hefjast á næstunni, ásamt fleiri verkefnum.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.