Stjórn Vestfjarðastofu lýsir þungum áhyggjum af frumvarpi ríkisstjórnarinnar um hækkun á veiðigjaldi‏. Hún telur ljóst að áhrifin af hækkun veiðigjalda verði „mjög íþyngjandi og komi afar hart niður á litlum og meðalstórum bolfiskútgerðum“.

Í ályktun stjórnarinnar, sem er birt á vef Vestfjarðastofu, er bent á að á Vestfjörðum séu eingöngu litlar og meðalstórar útgerðir í bolfiskveiðum og vinnslu.

„Þrátt fyrir að frítekjumark hafi verið hækkað, þá verður sú hækkun étin upp að miklu leyti upp vegna aukins þunga í gjaldtöku á þorsk og ýsu í nýjustu breytingum frumvarpsins.“

Segja áformin óásættanleg

Stjórn Vestfjarðastofu segir áform ríkisstjórnarinnar óásættanleg með tilliti til mikillar skerðingar á samkeppnishæfni og framlegð þessara sjávarútvegsfyrirtækja. Er þar vísað til greininga Deloitte og fyrirtækjanna sjálfra á nýjustu ársreikningum vestfirskra sjávarútvegsfyrirtækja.

„Slíkur skortur á samkeppnishæfni kemur niður á endurnýjun á tækjabúnaði og fjárfestingu í framþróun, nýsköpun og þjónustukaupum.

Fram hafa komið áhyggjur forsvarsmanna minnstu eininganna um tilvistargrundvöll sinn ef breytingarnar ganga eftir sem ber að taka alvarlega. Afleiðingar skertrar samkeppnishæfni og minni fjárfestinga hafa bein áhrif á útsvarstekjur sveitarfélaga og fjölmargar afleiddar þjónustugreinar sem skapa umsvif og tekjur.“

Vestfjarðastofa segir ríkisstjórnina ekki hafa svarað því hvernig staðinn verði vörður um samkeppnishæfni fyrirtækja og samfélaga á Vestfjörðum.

Kallað er eftir útskýringu á því misræmi sem er á milli útreikninga ráðuneytis og SFS svo hægt sé að treysta útreikningum vegna áhrifa af frumvarpinu. Þá fylgi breytingum á frítekjumarki frá fyrstu drögum aðrar breytingar á útreikningum með tilheyrandi óvissu um endanlega niðurstöðu.

„Stjórn Vestfjarðarstofu skorar á stjórnvöld að bregðast hratt við og endurskoða enn frekar tillögu sína um hækkun á veiðigjaldi þannig að tekið verði tillit til réttmætra áhyggja atvinnulífs og sveitarfélaga á Vestfjörðum. Það er lágmarkskrafa að áhrifin af hærra veiðigjaldi á samfélög á Vestfjörðum verði könnuð með ítarlegri hætti áður en lengra er haldið,“ segir í tilkynningunni.

„Aðrar íþyngjandi tillögur á samfélög á Vestfjörðum undanfarinna missera svo sem innviðagjald á skemmtiferðaskip, kolefnisgjald og hækkun á sérstökum laxaskatti í ofanálag leggst ofan á allt annað til þess að draga úr þeim viðnámsþrótti sem hefur einkennt síðustu ár á Vestfjörðum.“

Vestfjarðastofa er sjálfseignarstofnun sem tók við verkefnum sem hefur m.a. það markmið að efla atvinnulíf á Vestfjörðum. Stjórn stofnunarinnar er skipuð níu aðalmönnum og jafnmörgum til vara. Fimm þeirra koma af vettvangi sveitarstjórnarmála en fjórir af vettvangi atvinnulífs og menningar.

Þess má geta að Gylfi Ólafs­son, formaður bæj­ar­ráðs Ísa­fjarðarbæj­ar, situr í stjórn Vestfjarðastofu. Gylfi hef­ur lengi verið flokks­bund­inn í Viðreisn og gegndi meðal ann­ars starfi aðstoðar­manns Bene­dikts Jó­hann­es­son­ar, þáver­andi fjár­málaráðherra, sem er jafnframt stofnandi Viðreisnar.