Fjölmiðla- og fjarskiptafélagið Sýn gagnrýnir í ársreikningi sínum aðgerðaleysi stjórnvalda í tengslum við rekstrarumhverfi fjölmiðla. Stjórnendur félagsins segja ekki sjálfgefið að einkareknar fjölmiðlaveitur geti við svo búið haldið úti öflugum fréttamiðlum.

Alþingi haldi áfram að leggja á sértækar kvaðir

Sýn bendir á að myndaðir voru tveir starfshópar á vegum hlutaðeigandi ráðuneytis. Annarri nefndinni var fengið að kanna hvernig unnt væri að draga úr fyrirferð Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og hinni að jafna samkeppnisstöðu við erlendar streymiveitur.

Hvað síðari liðinn varðar segir Sýn að Alþingi haldi áfram að íþyngja einkareknum fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækjum með áformum um lagasetningu þar sem sértækar kvaðir eru hertar enn frekar „langt umfram þær kvaðir sem erlendar streymisveitur búa við“. Þetta eigi að mynda um talsetningu og þýðingarskyldu.

„Í trássi við endurteknar yfirlýsingar stjórnvalda um nauðsyn þess að jafna samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla og erlendra streymisveitna hafa þau enn sem komið er ekki gripið til neins konar aðgerða í þá veru, svo sem með því að leggja skatt eða fjárfestingakvöð á erlendar streymisveitur í samræmi við heimildir í EES tilskipunum eins og tíðkast víða í Evrópu, þ.m.t. á Norðurlöndum.“

Ekki enn gripið til raunhæfra úrræða í málefnum RÚV

Stjórnendur Sýnar furða sig einnig á að ekki hafi enn verið gripið til neinna raunhæfra úrræða til að minnka fyrirferð Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði.

„Nú er kominn tími til að efndir fylgi fögrum fyrirheitum, enda ekki sjálfgefið að einkareknar fjölmiðlaveitur geti við svo búið haldið úti öflugum fréttamiðlum.“

Herdís Dröfn Fjeldsted, sem tók við sem forstjóri Sýnar í byrjun árs, gagnrýndi stjórnvöld í pistli í byrjun mánaðarins fyrir að styðja ekki betur við einkarekna miðla í erfiðu alþjóðlegu umhverfi „heldur virðast þvert á móti ætla að auka enn á séríslenska, heimagerða hindrun“. Eins sagði hún hljóð og mynd einfaldlega ekki fara saman í málefnum RÚV.

Sýn tekur í sama streng í ársreikningnum og segir almennt orðaðan viðauka við nýgerðan þjónustusamning ríkisins og Ríkisútvarpsins duga skammt „enda áformar Ríkisútvarpið stórauknar auglýsingatekjur á árinu 2024, þvert á markmið og orðalag fyrrgreinds viðauka“.

Helsta viðfangsefni fjölmiðlanefndar að framfylgja úreltum lagakvæðum

Auk aðgerða ríkisstjórnarinnar gagnrýnir félagið einnig störf Fjölmiðlanefndar og ákvörðun Fjarskiptastofu.

Sýn bendir á að Fjölmiðlanefnd hafi einungis tekið fjórar stjórnvaldsákvarðanir á árinu 2023. Tvær þeirra lutu að því að sekta Sýn fyrir meint viðskiptaboð um áfengi.

„[Það] virðist helsta viðfangsefni fjölmiðlanefndar á síðasta ári hafa verið að framfylgja úreltum lagakvæðum um bann við viðskiptaboðum um áfengi.“

Fjölmiðlanefnd ákvað hins vegar í áliti að falla frá sekt á Ríkisútvarpið fyrir hliðstætt brot á viðskiptaboðum fyrir nikótínvörur. Sýn bendir í því samhengi á að meginmarkmið fjölmiðlalaga sé að stuðla að fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlun.

Í tilviki Fjarskiptastofu segir Sýn að nýverið hafi tíðniheimildir verið endurnýjaðar. Þær séu ekki aðeins kostnaðarsamar fyrir félagið heldur fela þær í sér íþyngjandi útbreiðslukröfur, sem draga úr fjárfestingagetu fjarskiptafélaga á öðrum svæðum en kröfurnar ná til, að því er segir í ársreikningnum.