Vogunarsjóðir með konu sem framkvæmdarstjóra stóðu sig betur á fyrstu fjórum mánuðum ársins heldur en þeir sjóðir sem eru reknir af körlum. Financial Times segir frá.
Sjóðir með kvenkyns framkvæmdarstjóra töpuðu um 3,5% á fyrsta þriðjungi ársins ef horft er til vísitölunnar HFR Women Access sem samanstendur af 25 sjóðum og um 13,2 milljörðum dollara. Tap vogunarsjóða í HFRI 500 Fund Weighted vísitölunni nam um 5,5% en hún nær til töluvert fleiri sjóða með bæði karl- og kvenkyns stjórendum.
„Heilt yfir virðast þær nálgast áhættu betur,“ hefur FT eftir Russell Barlow sem starfar hjá fjárfestingarfyrirtækinu Aberdeen Standard. „Gögnin gefa til kynna að það er hærra hlutfall af sjóðum í ‚meðallagi‘ sem eru reknir af körlum heldur en konum.“
Hlutfall kvenna sem vinna í vogunarsjóðum er um 18,8% samkvæmt gagnaveitunni Preqin. Þar af er hlutfall kvenna í stjórnendastöðum í vogunarsjóðum um 10,9%.
Sumir telja að konur hafi verið leiknari í að forðast tap þegar hlutabréfamarkaðir byrjuðu að titra í lok febrúar. Takmörkun taps er „lykil eiginleiki sem kvenkyns framkvæmdarstjórar hafa náð að standa undir“, sagði Barlow.