Lagt er til í fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2023 að fasteignaskattar á íbúðar- og atvinnuhúsnæði lækka sem um nemur raunhækkun fasteignamats. Fjárhagsáætlunin verður lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag.
„Almenn fasteignagjöld munu að meðaltali fylgja verðlagsþróun næsta árs en ekki hækka um tug prósenta vegna fasteignamatshækkana,“ segir í tilkynningu bæjarfélagsins.
Lagt er til að fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði lækki úr 0,2% í 0,17% og fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði lækkar úr 1,44% í 1,42%. Auk þess lækki önnur fasteignagjöld að undanskildu sorphirðugjaldi sem hækkar vegna aukinna útgjalda við sorphirðu og sorpeyðingu.
Útsvar fyrir árið 2023 verður óbreytt í 14,48%. Almennar gjaldskrárhækkanir hjá Kópavogsbæ verða 7,7% sem er í samræmi við forsendur fjárlaga.
„Kópavogur mun leggja sitt af mörkum við að ná verðbólgu niður og liðka fyrir gerð kjarasamninga. Þannig munu gjaldskrár ekki hækka í samræmi við miklar kostnaðarhækkanir, heldur í samræmi við forsendur fjárlaga.“
230 milljóna hagræðingaraðgerðir
Áætlun um afkomu A-hluta Kópavogsbæjar í ár með viðaukum gerir ráð fyrir 196 milljóna króna halla. Sé B-hlutinn tekinn með er áætlað að hallinn verði um 120 milljónir.
„Áfram verður staðið vörð um traustan rekstur en erfitt efnahagsumhverfi mun áfram lita rekstur bæjarins á næsta ári. Hagræðing er nauðsynleg en grunnþjónusta verður undanskilin þeim aðgerðum. Ráðist verður í hagræðingaraðgerðir sem nema 230 milljónum króna á árinu 2023 eða sem nemur 0,5% af heildarútgjöldum samstæðunnar.“
Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A-hluta Kópavogsbæjar verði jákvæð um 30 milljónir króna árið 2023 og að 83 milljóna króna afgangur verði af rekstri A- og B-hlutans.
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri:
„Áætlun ársins 2023 endurspeglar ábyrgan rekstur og rétta forgangsröðun þar sem álögum og gjöldum er stillt í hóf og þjónusta við bæjarbúa er í forgangi. Ráðist verður í nauðsynlegar hagræðingar en staðið vörð um grunnþjónustu bæjarins. Kópavogsbær leggur einnig sitt af mörkum til að ná niður verðbólgu og liðka fyrir gerð kjarasamninga með því að stilla gjaldskrárhækkunum í hóf og lækka fasteignaskatta.
Við leggjum áherslu á að leysa mönnunarvanda á leikskólum bæjarins og verða markviss skref stigin á árinu til að bæta starfsumhverfi. Þá verður boðið uppá heimgreiðslur fyrir foreldra sem ekki fá leikskólapláss við tólf mánaða aldur. Lagt verður til viðbótarfjármagn í velferðarþjónustu en þjónusta við fatlað fólk er stórlega vanfjármögnuð af hálfu ríkisins og mikilvægt að ná niðurstöðu í þeim efnum hið fyrsta.”