Landsréttur hefur sýknað Kópavogsbæ af kröfum um frekari eignarnámsbætur vegna eignarnáms bæjarins á landi úr Vatnsenda árið 2007.
Hinn 28. maí 2018 var bænum birt stefna af hálfu Þorsteins heitins Hjaltested, þáverandi ábúanda jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi.
Aðalkrafa var um greiðslu úr hendi Kópavogsbæjar að fjárhæð 5,6 milljarðar. Jafnframt krafðist stefnandi viðurkenningar á skyldu Kópavogsbæjar til að greiða stefnanda skaðabætur vegna tapaðra árlegra leigutekna af 300 lóðum undir sérbýli á grundvelli eignarnámssáttar frá 30. janúar 2007.
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi bæjarfélagið til að greiða Magnúsi Pétri Hjaltested, syni Þorsteins heitins Hjaltested sem hafði höfðað málið upprunalega, 1,4 milljarða króna ásamt vöxtum auk þess sem viðurkennd var skylda bæjarins til að greiða skaðabætur vegna tapaðra árlegra leigutekna af 300 lóðum undir sérbýli í landi Vatnsenda.
Dómur í málinu var kveðinn upp í Landsrétti í dag en Landsréttur staðfesti viðurkenningu á því að Kópavogsbæ bæri að inna af hendi eftirfarandi skyldur, sem voru óumdeildar í málinu:
Skipuleggja byggingarreit undir fjögur einbýlishús ásamt byggingarreit fyrir skemmu og hesthús í heimalandi Vatnsendabýlis.
Skipuleggja fjórar lóðir sem komi í stað lóðarinnar Vatnsendablettur 134.
Skipuleggja tvær lóðir sem komi í stað lóðarinnar Vatnsendablettur 241a.
Veita Magnúsi Pétri Hjaltested einkaafnotarétt til haustbeitar fyrir sauðfé innan Lækjarbotnalands frá Fossvallarétt og ofan hennar.
Greiða kostnað við stofnun lóða í heimalandi Vatnsendabýlis, á Vatnsendabletti 134 og á Vatnsendabletti 241 og við þinglýsingu leigusamninga vegna sömu lóða.
„Kópavogsbær var hins vegar sýknaður af öllum öðrum kröfum aðaláfrýjanda, þ.e. bæði fjárkröfu og kröfu um viðurkenningu á skyldu til greiðslu skaðabóta vegna tapaðra árlegra leigutekna. Málskostnaður fyrir héraði og Landsrétti var látinn falla niður,“ segir í tilkynningu Kópavogsbæjar.